Smit í körfuknattleiksliði Hattar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. nóv 2021 12:40 • Uppfært 27. nóv 2021 14:29
Búið er að fresta leik Hattar gegn Fjölni í fyrstu deild karla í körfuknattleik, sem vera átti á morgun, vegna Covid-smita í leikmannahópi Hattar. Fjögur smit greindust á Egilsstöðum í gærkvöldi.
Þetta er staðfest í yfirlýsingu frá félaginu. Allir leikmenn og þjálfarar eru komnir í sóttkví.
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari liðsins, segir smit hafa komið upp í nærumhverfi liðsins. Leikmenn hafi þó ekki verið beðnir um að fara í sýnatöku en þeir hafi gert það í öryggisskyni í gær. Niðurstaðan hafi verið sú að tveir leikmenn hafi greinst jákvæðir. Þeir sýndu engin einkenni. Hann segir allan hópinn fullbólusettan
Eftir hádegi tilkynnti aðgerðastjórn almannavarna að alls hefðu fjögur smit verið staðfest á Egilsstöðum í gærkvöldi, þar af hefðu tveir verið í sóttkví. Verið er að rekja smitin og er vonast að í lok dags verði myndin orðið skýrari. Frekari tilkynningar verði sendar út þegar nánari upplýsingar liggi fyrir.
Minnt er á að opið er í sýnatöku á Egilsstöðum á morgun, sunnudag, frá 11:30-13:30. Íbúar eru hvattir til að nýta sé hana hafi þeir einhver einkenni eða tengsl við smitaðan einstakling