Skip to main content

Smit mögulega á sveimi á Egilsstöðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. des 2021 16:56Uppfært 03. des 2021 16:59

Rúmlega 180 manns mættu í Covid-sýnatöku á Egilsstöðum í dag. Ekki hefur tekist að greina uppruna smita sem komið hafa upp þar síðustu daga. Tveir greindust utan sóttkvíar í sýnatöku í gær.


Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands.

Alls greindust þrjú smit á Egilsstöðum í gær. Einn hinna smituðu var í sóttkví, en hinir tveir ekki. Verið er að rekja smitin.

Í hádeginu voru tekin rúmlega 180 PCR sýni. Sýnatakan er í gamla Blómabæ en röðin teygði sig yfir á bílaplanið hjá Bónus, sem er fyrir innan, þegar mest lét. Von er á niðurstöðum seint í kvöld eða fyrramálið og verða nánari upplýsingar sendar út þá.

Mörg smit hafa greinst á Egilsstöðum undanfarna daga. Í tilkynningunni segir að ekki hafi verið hægt að tengja þau öll saman varðandi uppruna eða útsetningu. Því sé ljóst að smit kunni að vera á sveimi í samfélaginu.

Aðgerðastjórnin áréttar því að fólk sinni vel persónubundnum sóttvörnum, haldi sig heima ef einkenni geri vart við sig og bóki PCR-sýnatöku við minnsta grun. Þá sé rétt að fara varlega í margmenni um helgina og hjálpast þannig að við að hindra útbreiðslu smita.