Sótti afla í þremur mismunandi lögsögum
Frystitogarinn Blængur NK er kominn til hafnar í Neskaupstað eftir eins og hálfs mánaða langan túr þar sem veitt var í þremur mismunandi lögsögum.
Haldið var í Barentshaf þann 10. nóvember að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar og þrátt fyrir dræma veiði til að byrja með rættist úr og allur þorskkvótinn veiddur tæpum mánuði síðar. Þaðan var haldið heim á leið en um norska lögsögu þar sem skipið mátti veiða 220 tonn og lauk þeim veiðum 15. desember. Svona til að kóróna góðan túr var einnig tekinn einn dagur á Íslandsmiðum áður en komið var í land með alls 770 tonn hvers verðmæti er um 315 milljónir króna.
Skipstjóri Blængs, Sigurður Hörður Kristjánsson, segist aldrei áður hafa veitt í þremur mismunandi lögsögum í einni og sömu ferð en þetta var fyrsta ferð Sigurðar á skipinu.