Staðfest að loðna er á ferðinni suðaustur af landinu

Staðfest er að loðna er á ferðinni suðaustur af landinu. Magnið er þó enn óljóst. Skip á leið heim af kolmunnaveiðum undan Færeyjum sigldu í fyrrakvöld fram á loðnugöngu miðja vegu milli hafsvæðanna Rósagarðsins og Rauða torgsins.

Hafrannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson tók sýni af fiskinum í gærkvöldi. Þar með er staðfest að um loðnu er að ræða. Sýnatökur halda áfram í dag en Bjarni var að kasta öðru sinni á tíunda tímanum.

Polar Ammassak, skip grænlensks hlutdeildarfélags Síldarvinnslunnar, kom á svæðið seint í gærkvöldi. Polar leitar til norðurs en Bjarni er á leið í suður. Þá fer Sighvatur Bjarnason frá Vestmannaeyjum meðfram landgrunninu.

Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarveiðisviðs Hafrannsóknastofnunar segir að það „komi undir skipin“ en enn sé óljóst hve mikil loðna sé á ferðinni. Stefnt hefur verið að því að fá sem gleggsta mynd á stöðuna fyrir helgi en þá er spáð versnandi veðri.

Það var Svanur RE, skip Brims á leið til Vopnafjarðar, sem fyrst sigldi fram á loðnugönguna. „Það var ákveðið á fundi með Hafrannsóknastofnun að það færu ekki öll skipin sömu línuna heim af kolmunnaveiðunum.

Aðalsteinn Jónsson fór fyrst. Svanur tók síðan næstu línu og rakst á þetta. Veðrið var hins vegar vont og erfitt að átta sig á stöðunni,“ segir Ingimundur Ingimundarson, útgerðarstjóri uppsjávarveiðiskipa Brims.

„Maður er bjartsýnn og svartsýnn til skiptis þrisvar eða fjórum sinnum á dag. Það er ekkert annað hægt en vona það besta. Yfirleitt skilar loðnan sér að lokum. Vonandi er sem mest af henni þarna en hún er komin við skilin þar sem erfitt getur verið að ná henni.“

Eftir löndun á Vopnafirði sigldi Svanur í gær til Norðfjarðar til að fá nýja víra eftir að hafa lent í tjóni á kolmunnaveiðunum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.