Skip to main content

Sveitarstjórn hvetur til friðunar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. sep 2022 10:11Uppfært 09. sep 2022 10:14

Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps hvetur til þess að hreindýrastofninn á veiðisvæði 2 verði friðaður næstu árin í von um að hann nái sér aftur á strik. Sveitarstjóri segir mikla hagsmuni í húfi fyrir íbúa sveitarinnar.


Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum á þriðjudag að hvetja yfirvöld til að friða stofninn á svæðinu í einhvern tíma, jafnvel næstu tvö ár, til að gefa dýrunum næði til að koma aftur inn á svæðið.

Austurfrétt hefur í vikunni fjallað um ástand stofnsins á veiðisvæðinu, sem nær milli Jökulsár á Dal og Grímsár/Lagarfljóts. Umhverfisstofnun, sem stýrir veiðunum, Náttúrustofa Austurlands, sem fylgist með stofninum og Félag leiðsögumanna með hreindýraveiðum (FLH) eru sammála um að draga verulega úr veiðum á næsta ári. Samhliða því þurfi að kanna hvers vegna dýrin sæki ekki lengur í sín aðalheimkynni.

Helgi Gíslason, sveitarstjóri, segir mikla hagsmuni í húfi fyrir sveitina. Annars vegar fái bændur arðgreiðslur fyrir ágang dýranna á þeirra landi. Þær miðast við útgefinn kvóta. „Þessar greiðslur hafa minnkað um helming síðustu ár,“ segir hann.

Hins vegar skipti dýrin miklu máli fyrir ímynd sveitarinnar og íbúa. „Dýrin laða bæði að ferðafólk en eru líka mikilvæg fyrir sjálfsímyndina þar sem veiðar og vinnsla hafa verið stunduð frá ómuna tíð.“

Sveitarstjórn boðaði á þriðjudag til sín sérfræðing frá Umhverfisstofnun og fulltrúa FLH til að fara yfir stöðuna. „Við höfum fengið mjög kraftmikil og skýr skilaboð frá veiði- og leiðsögumönnum sem hafa stundað heiðarnar áratugum saman um að það væri langt í frá í lagi með stofninn og beinlínis hvatningu um að sveitarfélagið skipti sér af,“ segir Helgi og bætir við að einhugur hafi verið innan sveitarstjórnar um afgreiðsluna.

Hann bendir þó á að ekki sé talað um alfriðun því heppilegt kunni að vera að gefa út algjöran lágmarkskvóta til að tryggja að veiðimenn fari á svæðið til að leita að dýrum því þannig geti náðst mikilvægar upplýsingar um stofninn.

Helgi fagnar því að málin séu komin inn í umræðuna. „Við fögnum þessari umræðu. Staðan hefur ekki endilega verið á allra vörum og nú vonum við að málunum verði fylgt eftir.“