Talsverðar skemmdir á bátum á Borgarfirði eystra
„Það hafa orðið einhverjar skemmdir á bátunum og nokkrir þeirra losnað frá,“ segir Kári Borgar Ásgrímsson, sjómaður á Borgarfirði eystri.
Veðurofsinn er slíkur í bænum að sjávarbrim hefur þeytt stórum hnullungum langt upp á vegi og í bátahöfninni velta fleyin um sem korktappar. Kári segir að mesta sprengjan í veðrinu hingað til hafi verið í hádeginu og staðan verið örlítið skárri eftir hádegið.
„Við erum allir að fylgjast vel með höfninni. Það hefur tekist vel hingað til og við náð þeim bátum sem hafa losnað. En það eru allnokkrar skemmdir á mörgum bátum.“
Samkvæmt nýjustu veðurspá verður áfram mjög hvasst fram til 16 eða svo áður en draga á mikið úr vindi á Austurlandi.
Mynd: Brimið hefur feykt stórum hnullungum langt upp á vegi eins og sjá má. Mynd Björn Aðalsteinsson