Skip to main content

Telja tímabært að skoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. des 2021 09:53Uppfært 08. des 2021 10:05

Fulltrúar í sveitarstjórn Múlaþings vilja að farið verði yfir tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Covid-faraldurinn og nýir kjarasamningar hafa þyngt reksturinn.


Þetta kom fram við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Múlaþings en seinni umræðan verður í vikunni. Samkvæmt áætluninni verður taprekstur á A-hluta rúmar 200 milljónir og í þriggja áætlun er ekki get ráð fyrir jákvæðri afkomu fyrr en 2024. Rekstur samstæðu í ár verður hins vegar jákvæður um 65 milljónir.

Þeir bæjarfulltrúar sem tóku til máls í fyrri umræðunni lýstu almennt stuðningi við áætlunina sem þeir sögðu gerðar við erfiðar aðstæður vegna tekjutaps út af Covid-faraldrinum. Á sama tíma hafa sveitarfélögin reynt að halda uppi atvinnustigi með framkvæmdum og forðast niðurskurð.

Ljóst að auka þarf tekjur á næstu árum

„Það er mikilvægt að Múlaþing sé samkeppnishæft og bjóði íbúum sínum upp á bestu mögulegu lífsgæði, þrátt fyrir áskoranir. Það er hins vegar ljóst við þurfum að auka tekjur á næstu árum,“ sagði Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans.

Launahækkanir og stytting vinnuvikunnar í kjölfar kjarasamninga vorið 2019 hafa einnig áhrif. „Þrátt fyrir fyrirheit um annað hafa lífskjarasamningarnir, með styttingu vinnuvikunnar, reynst þungir í skauti,“ sagði Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar.

Vilja ræða framlag ríkisins til skólamála

Áfram er gert ráð fyrir launahækkunum, upp á 8% á næsta ári. Þá eru kjarasamningar kennara lausir. Skólamál eru langstærsti útgjaldaliður sveitarfélaga, taka víða til sín meira en helming tekna. Þannig er staðan í Múlaþingi. „Það er umhugsunarefni hvort ekki sé löngutímabært að endurskoða þau kjör sem samið var um þegar sveitarfélögin tóku grunnskólann yfir,“ sagði Gauti.

„Það er rík ástæða til að standa á tánum og þrýsta á ríkið að koma og endurskoða samningana um grunnskólann,“ sagði Þröstur Jónsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins. Hann benti einnig á að sveitarfélögin þyrftu að hafa meiri hvata af fjölgun atvinnutækifæra heldur aðeins von um fjölgun íbúa og hækkun útsvarstekna.

Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga er ekki sanngjörn

„Þetta lítur ekki alveg nógu vel út, reksturinn er erfiður. Það er sorglegt að árangur sem náðst hefur með launahækkun kvennastétta, styttri vinnuviku og fjölskylduvænna samfélagi geri sveitarfélögin illstarfhæf.

Við því er fátt annað að gera en sækja á ríkið. Tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga er ekki sanngjörn. Við verðum að fá til okkar stærri hluta. Við þurfum hlutdeild í fleiri sköttum en við höfum haft,“ sagði Helgi Hlynur Ásgrímsson, bæjarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Verður að skoða heildstætt

Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokks, sagði að horfa þyrfti á meira en ríflega aldarfjórðungsgamla samninga um yfirfærslu grunnskólans. „Í sjálfu sér er ekki neikvætt að kjör starfsfólks hafi batnað. Við eigum að vera stolt af því verkefni sem við höfum fengið að tryggja okkar fólki sem best starfskjör eða starfstæður. Afleiðingarnar, að þetta komi þyngra niður á sveitarfélögunum en séð var fyrir, eru auðvitað athugunarefni.

Ég er sammála því að setjast þarf yfir tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég held að það sé best gert í víðu samhengi, frekar en horfa á eina samninga sem gerðir voru fyrir býsna löngu síðan. Það þarf að horfa á heildarmyndina, hve mikið sveitarfélögin bera af þjónustu og hvað þau fá að tekjum. Það er ljóst að of smár hluti kökunnar fellur þeim í skaut miðað við hvað þau bera af samneyslunni.“

Áhyggjuefni að útsvarstekjur standi ekki undir launaþróun

Elvar Snær Kristjánsson, formaður fjölskylduráðs, benti á að upphaflega hefði verið gert ráð fyrir að ríkið sæi um námsgögn fyrir grunnskólanna. Kostnaður tölvuvæðingar, hinna nýju námsgagna, lenti hins vegar á sveitarfélögunum. Gauti sagði að skoða þyrfti aðkomu ríkisins að leikskólum sem væru löngu orðnir hluti af kröfum íbúa um grunnþjónustu.

Berglind Harpa Svavarsdóttir, fulltrúi D-lista, sagði áhyggjuefni að útsvarstekjur stæðu ekki undir launaþróun sveitarfélaga. Kristjana Sigurðardóttir, fulltrúi í fjölskylduráði, sagði ráðið hafa þurft að stilla af óskir forstöðumanna stofnana af við blákaldann veruleikann.