Þjóðvegurinn stendur í vegi fyrir uppbyggingu að Teigarhorni
Afar brýnt er að færa Þjóðveginn við bæinn Teigarhorn sem allra fyrst og mun fyrr en áætlanir Vegagerðarinnar gera ráð fyrir að mati heimastjórnar Djúpavogs.
Teigarhorn er landsþekktur og einstakur friðlýstur staður örskammt frá Djúpavogi en umferð ferðafólks á svæðið hefur margfaldast á örfáum árum. Nokkur fjöldi óhappa og slysa hafa orðið við staðinn síðustu ár sökum þess að Þjóðvegurinn er aðeins um 50 metra frá bænum en áætlanir gera ráð fyrir færslu hans upp fyrir svokallaðan Langaklett.
„Það er á áætlun hjá Vegagerðinni að færa Þjóðveginn ofar en hann er nú en hann er aftarlega í samgönguáætlun og mörg ár í framkvæmdir,“ segir Eiður Ragnarsson, starfsmaður heimastjórnar Djúpavogs.
Eiður segir ekki aðeins sé vegarkaflinn hjá bænum hættulegur heldur komi hann beinlínis í veg fyrir bráðnauðsynlega uppbyggingu til að vernda þennan merka stað.
„Þarna er bæði hættuleg blindbeygja og blindhæð og þar sem örfáir bílar komast að bænum sjálfum þá leggur fólk gjarnan við Þjóðveginn sjálfan og skapar þannig töluverða hættu. Við getum heldur ekki komist í nauðsynlega uppbyggingu til dæmis á fleiri bílastæðum fyrr en Þjóðvegurinn verður færður því það er ekkert pláss. Þaðan af síður byggt þjónustumiðstöð fyrir þær þúsundir sem heimsækja Teigarhorn á hverju ári.“