Þriðji víkingaaldarskálinn kominn í ljós á Stöðvarfirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. jún 2025 09:38 • Uppfært 11. jún 2025 15:43
Fornleifafræðingar, sem rannsaka víkingaldarminjar við Stöð í Stöðvarfirði, telja sig fullvissa um að hafa fundið þriðja skálann frá þeim tíma. Beðið er nánari greininga á stærð skálans. Nokkrir eftirtektarverðir munir hafa þegar komið í ljós við uppgröftinn í ár.
„Það má segja að sumarið hafi farið af stað með látum,“ segir Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur sem stýrt hefur uppgreftrinum að Stöð frá því byrjað var að grafa þar árið 2015.
Þar var í fyrra lokið við að grafa í rústum tveggja skála sem stóðu hvor ofan á öðrum. Sá eldri var fyrir landnám og undir honum einhverjar enn eldri minjar sem hann virðist hafa raskað. Sá er reistur í kringum árið 870 en yngri skálinn trúlega um 950.
Eiga eftir að aldursgreina þriðja skálann
Árið 2023 var farið að skoða umhverfi skálanna nánar og það mælt með jarðsjá. Bjarni segir að við nánari greiningu þeirra mynda hafi grillt í minjar austnorðaustur af hinum skálunum, norður af gömlum öskuhaug sem fornleifafræðingarnir hafa reglulega grafið í.
Í fyrra voru teknir prufuskurðir á þessu svæði og þá kom bygging í ljós. Grunur sem þá vaknaði um að hún væri skáli hefur nú verið svo gott sem staðfest. Eftir er að aldursgreina skálann, búið er að taka kolefnissýni eða C-14 sýni en engin gjóskulög liggja þar sem hægt er að styðjast við. Eins er beðið staðfestingar á stærð hans.
„Við höfum þess vegna ekki staðsett skálann í tíma, hvort hann tilheyri öðrum hvorum hinna skálanna eða sé millileikur, eins og ég freistast til að halda,“ segir Bjarni.
Skilgreiningin á skála er aflangt hús með stoðum upp úr gólfi sem halda uppi þakinu. Bjarni segir um að ræða þriggja skipa skála, með miðskipi og síðan hliðarskipum sem eru þá fyrir utan þaksúlurnar. „Það eru vísbendingar um að hann sé öðruvísi en skálar almennt, það virðist einhvers konar ræsi í honum. Við sjáum strax að hann er mjög fundaríkur og búumst við mörgum gripum.“
Áfram margir gripir
Í ár var byrjað að grafa að Stöð mánudaginn 2. júní og grafið verður til föstudagsins 27. júní. Nokkrir gripir af þeim, sem grafnir hafa verið upp í sumar, hafa þegar vakið sérstaka athygli Bjarna. Til dæmis kom skutull upp úr öskuhaugnum. Hann styrkir enn frekar kenningar um að á Stöð hafi verið útstöð, staður þar sem fólk kom til að stunda ákveðna atvinnu og bjó í ákveðinn tíma en settist þar ekki að til lengri tíma. Tveir aðrir skutlar, eða spjótsoddar, hafa áður fundist þar.
Þá kom í ljós skreytt bjalla úr bronsi sem er sú fimmta sinnar tegundar sem finnst hérlendis. Áfram finnast síðan perlur, skífur og jaspísar.