Skip to main content

Þröngt orðið um björgunarsveit og slökkvilið á Borgarfirði eystri

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. des 2021 11:38Uppfært 08. des 2021 11:40

„Þetta er nánast lúxusvandamál því bæði við og slökkviliðið erum svo vel tækjum búin að það er farið að þrengja rækilega að,“ segir Bergvin Snær Andrésson, formaður björgunarsveitarinnar Sveinunga á Borgarfirði eystra.

Björgunarsveitin og slökkviliðið eru þar saman í skemmu ásamt endurvinnslu staðarins og þröngt orðið um öll þau tæki og tól sem slíkir aðilar þurfa á að halda í starfseminni.

Heimastjórn Borgarfjarðar eystri hefur fundað um málið og jafnframt gert heildarúttekt á þörfinni á auknu atvinnuhúsnæði í bænum og sú úttekt leiddi í ljós að þörfin er sannarlega fyrir hendi.

Bergvin segir engar lausnir liggja fyrir að svo komnu máli en málið komið í farveg og heimastjórnin leiti nú leiða til að leysa húsnæðisvandann.

„Ég veit til þess að fleiri aðilar á svæðinu gætu hugsað sér að stækka við sig eða fara í stærra húsnæði svo þörfin er víðar en hjá okkur.“

Ein hugmynd sem hefur verið rædd á fundum heimastjórnarinnar er að færa starfsemi endurvinnslunnar úr húsinu og yfir í nýtt atvinnuhúsnæði. Jafnframt hefur heimastjórnin beint því til byggðaráðs Múlaþings hvort hægt sé að fella niður gatnagerðargjöld til að liðka fyrir uppbyggingu atvinnuhúsnæðis í bænum.