Skip to main content

Þungur rekstur Múlaþings næstu tvö ár

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. des 2021 11:09Uppfært 07. des 2021 11:23

Get er ráð fyrir rúmlega 60 milljóna afgangi af rekstri samstæðu Múlaþings í fjárhagsáætlun næsta árs. Hins vegar er meira en 200 milljóna tap af A-hlutanum.


Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun sem tekin verður til seinni umræðu á fundi sveitarstjórnar í vikunni. Covid-faraldurinn hefur haft veruleg áhrif á fjárreiður sveitarfélaga sem voru hvött til að leggja sitt af mörkum til að halda uppi atvinnustigi meðan faraldurinn gengi yfir.

Gert er ráð fyrir að útsvartekjur nemi rúmum 3,2 milljörðum og er það hækkun um 8% eða 440 milljónir. Fasteignaskattar hækka um 7% eða 660 milljónir. Búist er við að framlag úr Jöfnunarsjóði verði 1,9 milljarðar. Heildarskatttekjur verði þannig tæpir sex milljarðar.

Niðurstaða A-hluta, sem í grófum dráttum eru lögboðin verkefni fjármögnuð með skatttekjur, er neikvæð um 202 milljónir í áætluninni. Ekki er gert ráð fyrir að hún verði jákvæð fyrr en 2024, þá um 40 milljónir. Við fyrri umræðuna sagði Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, að sýnt væri að reksturinn væri þungur næstu tvö ár í A-hlutanum en B-hlutinn myndi vega upp á móti.

Fræðslu- og uppeldismál eru sem fyrr langstærsti útgjaldaliðurinn, taka til sín 3,3 milljarða. Íþrótta- og æskulýðsmál eru 608 milljónir og sameiginlegur kostnaður 451 milljón. Gert er ráð fyrir að launagreiðslur hækki um 8,3% eða 318 milljónir. Laun sem hlutfall af rekstrartekjum hækkar úr 57% í 62,1%. Heildarlaunagreiðslur eru 4.352 milljónir.

Eins og Björn benti á lagast staðan þegar B-hlutinn, fyrirtæki og sérstakir sjóðir sveitarfélagsins, eru teknir með. Stærstu þættirnir þar eru hafnarsjóður og veitur. Þá verður niðurstaðan jákvæð um 65 milljónir, en fyrir ári var reiknað með að hún yrði jákvæð nú um fjórar milljónir.

Veltufé frá rekstri í A-hluta er 318 milljónir en 850 milljónir í samstæðunni. Til að geta látið hlutina ganga þrátt fyrir áhrif faraldursins er gert ráð fyrri talsverðri lántöku á næsta ári. Afborganir lána á næsta ári verða 640 milljónir í A-hluta en 950 milljónir í samstæðu. Skuldaviðmið A-hluta verður 103% í lok næsta árs en 138% í samstæðunni. Fjárfestingar í A-hluta eru 750 milljónir en 1,9 milljarður í samsteypunni.

Björn sagði að þótt útgjöldin tækju í myndu þau gera Múlaþing í stakk búið til að mæta fjölgun íbúa og auknum kröfum íbúa um grunnþjónustu. Eftir standi sterkir innviðir og þjónusta sem tryggi að Múlaþing verði áfram aðlaðandi búsetukostur.