Skip to main content

Turninn rís á ný á Seyðisfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. nóv 2021 11:02Uppfært 30. nóv 2021 13:57

„Upprunalegu teikningarnar eru til og verða notaðar við endurbygginguna,“ segir Ólafur Örn Pétursson, landfræðingur, en hann hefur haft forgöngu um að hafist verði handa við að endurbyggja Turninn svokallaða á Seyðisfirði.

Verður þetta fyrsta húsið af þeim mörgu sem jöfnuðust við jörðu í aurskriðunum sem féllu á Seyðisfirði í desember sem endurbyggt verður en Turninn verður í framtíðinni staðsettur á Austurvegi 1 í stað Hafnargötu 34 áður.

Er þetta í takt við tillögur sérstakrar nefndar sem sett var á laggirnar í kjölfar skriðanna hvers verkefni var að koma með tillögur um flutning menningarsögulegra bygginga sem gætu verið í hættu í framtíðinni. Lagði nefndin sérstaklega til að endurbyggja Turninn.

Ólafur segir að það hafi verið að áeggjan foreldra sinna sem hann dreif sig í verkefnið en foreldrar Ólafs áttu um tíma hlut í húsinu.

„Það er ekki á dagskránni að ég verði sjálfur með rekstur í húsinu enda er þetta aðeins 30 fermetra bygging og hentar ekki í hvað sem er. En leiga eða sala kemur til greina ef einhver hefur áhuga og áhugasamir mega hafa samband við mig.“

Fornfrægt hús

Turninn hafði mikla sögu að baki en það var flutt til Seyðisfjarðar frá Noregi árið 1907 og var byggt í svokölluðum víkingarómantískum drekastíl en lengi vel trónuðu útskornir drekar á mæni hússins. Í húsinu var verslun og margir vilja meina að Turninn hafi verið fyrsta „sjoppan“ á Íslandi. Síðar meir varð þetta raunveruleg verslun með hinar og þessar nauðsynjar.

Grenndarkynning

Húsið og staðsetning eru í grenndarkynningu hjá Múlaþingi og gangi það vandræðalaust fyrir sig gæti nýr Turn risið strax á næsta ári.

* Mynd af Turninum eins og hann leit út upprunalega en myndin er í eigu Þjóðminjasafns Íslands