Hugsanleg nautgripakórónuveira stingur sér niður á Héraði
Sjúkdómurinn veiruskita virðist hafa stungið sér niður í kúm á Héraði en faraldur vegna þessa hefur geysað á Eyjafjarðasvæðinu að undanförnu.
Veiruskita er bráðsmitandi sjúkdómur í nautgripum en enn hefur ekki tekist að greina orsök sjúkdómsins að fullu. Þó er talið líklegt að orsökin sé nautgripakórónuveira að því er fram kemur á vef Matvælastofnunar en það þó ekki verið staðfest.
Sjúkdómurinn smitast með saur og slími frá nösum. Smit berst mjög auðveldlega með fólki, dýrum og ýmsum hlutum eins og múlum, fatnaði, tækjum, bifreiðum og slíku Oftast smitast allir næmir gripir á búinu á nokkrum dögum og sjúkdómurinn gengur yfir á einni til tveimur vikum. Sjúkdómurinn er ekki hættulegur fólki og hefur ekki áhrif á neysluhæfni afurða.
Afleiðingar sjúkdómsins geta verið alvarlegar og langvarandi þar sem sjúkdómurinn veikir ónæmiskerfi kúnna þannig að þær verða viðkvæmari fyrir öðrum sjúkdómum.
Matvælastofnun hvetur nautgripabændur til að huga vel að sóttvörnum á búum sínum og dragi úr allri utanaðkomandi umferð fólks eins og kostur er. Allir sem erindi eiga inn í gripahús ættu að nota hlífðarfatnað og stígvél búsins eða einnota skó- eða stígvélahlífar.