Verkalýðshreyfingin verður að geta lifað af einstaklinga í forustunni
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. maí 2023 11:17 • Uppfært 03. maí 2023 11:20
Launþegar á landsbyggðinni þurfa að undirbúa viðbrögð sín við því að Efling reyni að kljúfa sig út úr Starfsgreinasambandinu og þar með frá láglaunafólki í hinum dreifðari byggðum. Innri átök geti reynst verkalýðshreyfingunni dýr. Mikilvægara er að hugsa um framtíð hennar en einstaka forustumenn.
Þetta er meðal þess sem komið var inn í 1. maí ávarpi AFLs Starfsgreinafélags sem flutt var víða um Austurland á frídegi verkafólks á mánudag. Dagurinn var haldinn strax að loknu framhaldsþingi Alþýðusambands Íslands þar sem kjörinn var nýr formaður, en þinginu var frestað í haust eftir mikil átök.
„Frá nýloknu framhaldsþingi Alþýðusambandsins koma fulltrúar félaganna sáttir og friðsælir. Hve lengi mun sú sátt og sá friður ríkja sem þar skapaðist er undir okkur komið,“ segir í ávarpinu.
Innri átök mikil vonbrigði
Stærstur hluti ávarpsins fjallar um átökin innan ASÍ og áhrif þess á stöðu launafólks. Um þau segir: „Innri mál hreyfingarinnar síðustu ár eru mikil vonbrigði. Skens og glósur hafa gengið milli formanna aðildarfélaga Alþýðusambandsins og samheldni og samstaða hefur reynst lítil. Það er draumastaða fjármagnsins - það er að etja launafólkinu til innri átaka.
Vissulega hafa nýir formenn komið inn með önnur sjónarmið og beinlínis gengið gegn mörgum venjum og siðum hreyfingarinnar. Það getur reynt á þá sem fyrir sitja á bóli.
En hver einstaklingur í forystu hreyfingarinnar er lítils virði samanborið við hreyfinguna sjálfa. Við verðum öll að læra að lifa með breytingum í forystu – breytingum í áherslum og baráttuaðferðum. Við getum aldrei sett hagsmuni einstakra forystumanna ofar hagsmunum hreyfingarinnar því þá farnast okkur illa.
Á þeim rösku hundrað árum sem Alþýðusambandið hefur starfað hafa hundruð einstaklinga komið þar í forystu. Sumir hafa komið – jafnvel með miklum hávaða – en svo horfið á braut án þess að skilja eftir mikil vegsummerki. Aðrir hafa komið og náð árangri – ýmist með hávaða eða samningslipurð og skilja eftir sig drjúg afköst.“
Efling reynir að kljúfa sig frá landsbyggðinni
Er síðan sérstaklega vikið að ákvörðun félagsfundar Eflingar að efna til allsherjaratkvæðagreiðslu meðal félaga um úrsögn úr Starfsgreinasambandinu (SGS). Segir þar að Efling greiði um 50 milljónir til sambandsins á ári en fái nær enga þjónustu til baka. AFL er einnig aðildarfélag SGS.
„Við vitum að stærsta félagið innan Starfsgreinasambandsins, Efling, undirbýr átök. Ekki bara átök við viðsemjendur og stjórnvöld heldur einnig átök innan hreyfingarinnar, klofning frá landsbyggðinni, klofning frá láglaunafólki á landsbyggðunum, klofning frá þeim sem þurfa langt að sækja ýmsa þjónustu með tilheyrandi útgjöldum, klofning frá samstöðunni sem við höfum talið fram að þessu það mikilvægasta sem við eigum til að ná árangri.
Stóra spurningin sem við þurfum að spyrja okkur er hvort við ætlum að láta Eflingarfólkið eitt um baráttuna eða hvort við ætlum að berjast með því, berjast samhliða því? Hvort það sé vænlegra til árangurs fyrir hreyfinguna alla – fyrir láglaunafólk og meðallaunafólkið – að láta fjármagnseigendurna verða vitni að ágreiningi og skorti á samstöðu í okkar hóp,“ segir í ávarpinu.
Skefjalaus hagsmunabarátta alls staðar
Þar er einnig vikið orðum að ástandinu í þjóðfélaginu og efnahagsmálum. Að metsala sé á lúxusíbúðum á sama tíma og fólki í bráðavanda í húsnæðismálum fjölgi. Að Seðlabankinn telji utanlandsferðir uppruna verðbólgu og bankastofnanir hagnist vel meðan fjölskyldur lendi í neyð vegna aukinnar vaxtabyrðar. Búast megi við erfiðum tímum því verðbólgan éti upp árangur kjarabaráttu jafnharðan.
„Við verðum að ná að koma böndum á efri millistéttina og yfirstéttina sem endalaust boða þjóðarsáttir og ábyrgð í kjarasamningum en ætla aldrei að taka minnsta þátt sjálf. Baráttan er raunveruleg – það er skefjalaus hagsmunabarátta í gangi alls staðar þar sem við erum því miður að fara halloka.“
Hördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs.