Skip to main content

Viðsnúningur á Vopnafirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. des 2021 09:08Uppfært 17. des 2021 15:03

„Það er svona aðeins léttara yfir okkur hér en verið hefur lengi,“ segir Baldur Kjartansson, fjármálastjóri Vopnafjarðarhrepps, en fjárhagsstaða hreppsins er betri en útlit hefur verið fyrir lengi.


Fjárhagsáætlun næsta árs var samþykkt af hreppstjórn í vikunni með fimm atkvæðum meirihlutans en minnihlutinn sat hjá. Helstu niðurstöðurnar eru að samstæða A-hluta er neikvæð um tæpar sextán milljónir króna en samstæða A og B hluta saman jákvæð um 44 milljónir króna. Áætlaðar heildartekjur næsta árs verða rúmar 1300 milljónir króna og allar gjaldskrárhækkanir taka mið af almennum verðlagshækkunum.

Baldur segir fjárhagsstöðuna vissulega aðeins betri en óttast var. Árið hafi verið nýtt vel til að endurfjármagna eldri lán á mun betri kjörum og ef loðnuveiði verði góð mun Vopnafjörður njóta góðs af því. Fjárhagsáætlun sé þó í varfærari kantinum í því tilliti.

„Áætlunin er heldur varfærin. Við náum reyndar ekki að koma A-hlutanum úr mínus en við annað verður bærilega unað enda staðan sérstaklega erfið líka vegna Covid í ofanálag við annað.“

Aðspurður um sérstakar aðgerðir sem grípa á til á næsta ári tiltekur Baldur 9 prósent hækkun á fasteignamati, dregið verði úr sumarvinnu og almennt tekið harðar á hvers kyns útlátum en gert hefur verið. Baldur ítrekar þó varðandi hækkunina á fasteignamatinu að það hafi fyrr verið lækkað töluvert svo það jafnist aðeins út í stóru myndinni.