Vilja að ríkið taki þátt í kostnaði við fjarvarmaveitur

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur óskað eftir samtali við umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra um að ríkið styrki rekstur fjarvarmaveita á köldum svæðum. Formaður ráðsins segir rekstur þeirra þyngjast sífellt með dýrari og ótryggari orku.

Eins og Austurfrétt greindi frá fyrir helgi þurfti sveitarfélagið að leggja stofnunum sínum til 15 milljónir króna vegna aukins hitunarkostnaðar í vetur. Ástæðan er sú að fjarvarmaveitur Fjarðabyggðar, sem eru í Neskaupstað og Reyðarfirði, kaupa skerðanlega orku en sölu á henni var hætt þar sem einfaldlega ekki var nóg til af henni frá janúar fram í maí.

Við slíkar kringumstæður þurfa fjarvarmaveiturnar að fá orkuna annars staðar frá, gjarnan úr olíu. Fjarðabyggð nýtti þó einkum viðarperlukyndingu frá Tandraorku og gekk það ágætlega.

En í ljósi lágrar vatnsstöðu í miðlunarlónum er viðbúið að skerðingar haldi áfram. Raforka hefur einnig hækkað á síðustu árum, sem á sinn þátt í að rekstrargrundvöllur fjarvarmaveitunnar á Seyðisfirði, er talinn brostinn.

Vonast til að ríkið sé jákvætt


Á sama fundi og bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti viðbótarfjárveitingu vegna kostnaðarins í vetur var óskaði eftir fundi með ráðherra um stöðu fjarvarmaveitanna, sem til þessa hafa verið á herðum rekstraraðila, eins og Fjarðabyggðar.

„Við teljum kominnn tíma á samtal um rekstur þeirra og þróun. Raforkan verður sífellt stærri þáttur í rekstrarkostnaði þeirra. Fjarvarmaveiturnar eru á köldum svæðum og því teljum við eðlilegt að ríkið taki þátt í kostnaði við þær. Ég held að ríkið sé viljugt, en spurningin er hvenrig og hvenær næst saman,“ segir Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar.

Ýmsar lausnir til skoðunar


Á Seyðisfirði hefur RARIK ákveðið að hætta rekstri fjarvarmaveitunnar um næstu áramót. Þar eiga fleiri þættir þátt að máli, einkum dreifikerfi sem þarfnast mikilla endurbóta. Þar eru nær öll hús tengd fjarvarmaveitunni meðan í Neskaupstað og Reyðarfirði eru það stærri stofnanir. Þannig féllu 8 milljónir af viðbótinni til hjá sundlauginni í Neskaupstað.

Á Seyðisfirði hafa verið skoðaðar ýmsar lausnir og er miðlæg varmadæla, sem nýtir varma úr lofti til að hita vatn með stuðningi raforku, verið talinn besti kosturinn. „Staða okkar er annarra en Seyðfirðinga. Við höfum þó skoða ýmsar nýjungar og lausnir í okkar orku- og hitunarmálum en kannski á öðrum stöðum en hér ræðir um, til dæmis að styðja við hitaveituna á Eskifirði,“ segir Ragnar aðspurður um hvort slíkar lausnir hafi verið ræddar.

Alltaf áhugi á glatvarma frá álverinu


Þannig hefur reglulega verið horft á möguleikann á að nýta mikinn hita sem í dag fer út í loftið frá álveri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Einni hindruninni í veginum kann að verða rutt úr veginum með breytingu á raforkulögum þannig að stórkaupendum verði heimilt að selja orku frá sér.

„Við höfum verið í stöðugu samtali við Alcoa og lýst okkur tilbúin til að skoða þennan möguleika. Þetta er gríðarlega orka sem dygði til að hita öll hús á Reyðarfirði og jafnvel í fleiri byggðarkjörnum. Hins vegar gerir framleiðsluferlið ekki ráð fyrir þessum möguleika og það er mjög dýrt að breyta því. Í dag held ég að ferlið yrði hannað til að nýta þessa orku.“

Ragnar horfir frekar til græns orkugarðar sem áform eru uppi um á Reyðarfirði. Þar yrði rafeldsneyti unnið með að kljúfa vatn í vetni og súrefni með rafmagni. Við það ferli myndast líka mikill varmi.

Telur að virkja þurfi meira


Í minnisblaði fjármálastjóra Fjarðabyggðar um skerðingarnar í vetur segir að til þeirra hefði ekki þurft að koma ef nýtt tengivirki Landsnets á Hryggstekk í Skriðdal væri komið í gagnið. Ragnar segir að tengivirkið myndi hjálpa en meira þurfi að koma til.

„Það þarf að styrkja allt hringkerfi raforkunnar en við þurfum líka að virkja. Öll framtíðaráform og verkefni um allt land gera ráð fyrir orku. Styrking dreifikerfisins dugir ekki fyrir þeim og þess vegna þarf að virkja meira.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.