Skip to main content

Vilja endurskoða alla vetrarþjónustu frá grunni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. jan 2022 11:29Uppfært 27. jan 2022 14:24

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings telur einsýnt að endurskoða þurfi frá grunni regluverk um vetrarþjónustu og framkvæmd hennar.

Ráðið fjallaði um skipulag vetrarþjónustu í sveitarfélaginu en töluvert hefur borið á gagnrýni vegna þeirrar þjónustu yfirstandandi vetur eins og Austurfrétt hefur fjallað um síðustu mánuðina.

Var bókað á fundi ráðsins í vikunni með samþykkt allra meðlima að farið skuli í endurskoðun frá grunni. Telur ráðið óeðlilegt að yfir höfuð fyrirfinnist reglur sem velta kostnaði af vetrarþjónustu á vegum sem Vegagerðin er veghaldari á yfir á sveitarfélög og íbúa þeirra, svo sem með hinum svokallaða helmingamokstri. Það merkir að á tilteknum vegum þarf sveitarfélag að deila kostnaði með Vegagerðinni ef halda á vegnum færum eða opnum.

Sömuleiðis telur ráðið brýnt að tekið sé tillit til þess í vetrarþjónustu þegar um er að ræða tengingu byggðarlaga við þjónustukjarna og innan sama atvinnusvæðis. Einkum á þetta við um vegtengingar innan sveitarfélags og einnig skólaakstursleiðir, enda skal börnum lögum samkvæmt komið í skóla fimm daga vikunnar.

Jafnframt segir ráðið fulla ástæðu til þess að benda hlutaðeigendum á að aðstæður eru mjög misjafnar eftir landsvæðum þegar kemur að úrkomu og aðstæðum á vegum og leggur áherslu á að þjónusta og regluverk þar um taki tillit til þess. Ella geti skapast mikið ójafnræði milli landsvæða.