Skip to main content

Virðist vilji fyrir að vindorkuver verði innan rammaáætlunar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. maí 2023 11:59Uppfært 10. maí 2023 12:02

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra, skynjar vilja til að vindorkuver færu í gegnum ferli rammaáætlunar eins og aðrir virkjunarkostir hérlendis. Þar með er forræðið frekar á herðum ríkis heldur en einstakra sveitarfélaga.


„Miðað við hvernig þið talið hér þá skiptir máli að hafa vindorkuna innan rammaáætlunar,“ sagði Guðlaugur Þór á opnum fundi á Egilsstöðum í síðustu viku. Boðað var til fundarins til að fylgja eftir stöðuskýrslu starfshóps um vindorkumál á Íslandi.

Að vindorkuver séu innan eða utan rammaáætlunar er meðal stærstu álitaefnanna sem hópurinn gerir grein fyrir í skýrslu sinni. Ekki þar frekar í öðrum atriðum sem hópurinn skoðaði er komið með tillögur eða álit heldur aðeins greint hvað hafa þurfi í huga við ákvarðanatökuna.

Aukin sátt eða ákvörðun fárra?


Alþingi staðfestir kosti í rammaáætlun að undangenginni umfjöllun starfshópa. Um leið færist skipulagsvaldið þangað frá sveitarfélögum. Það getur reynst gott til að tryggja að áhrif vindorkuvera á nágranna á stærra svæði séu höfð í huga við ákvarðanatökuna. Þar með er síður horft á staðbundin áhrif við ákvarðanatöku. Á móti geti það aukið sátt í nærsamfélaginu að ákvörðun sé tekin af heimafólki frekar en Alþingi.

Þetta atriði var nokkuð rætt á fundinum og spurt út í rétt nágranna til mótmæla eða áhrifa á ákvarðanir sem sannarlega hafi áhrif á þá. Þetta kristallaðist í athugasemd Eyþórs Stefánssonar, sveitarstjórnarfulltrúa í Múlaþingi, um hvort nokkrir tugir kosningabærra manna, eins og í Fljótsdalshreppi, gætu í raun skilgreint víðerni Austurlands með að leyfa þar vindmyllur.

Rammaáætlun of svifasein?


Fylgjendur þess að vindorkan falli innan rammaáætlunar spyrja hvernig vindorkan sé frábrugðin öðrum virkjunarkostum. Þeir sem vilja fara með hana aðrar leiðir svara að svo sé. Um sé fyrst og fremst að ræða stórvaxin mannvirki en áhrif þeirra séu afturkræfari en annarra virkjana.

Háværasta gangrýnin á rammaáætlunina er þó hversu hægt hefur gengið að uppfæra hana á sama tíma og undirbúningstími vindorkuvera sé styttri en annarra virkjunarkosta. Þannig benti Hilmar Gunnlaugsson, lögmaður á Egilsstöðum og formaður starfshópsins, á það í framsöguræðu sinni að loks síðasta sumar hefði Alþingi samþykkt annan áfanga rammaáætlunar eftir níu ára ferli.

„Gagnrýni á rammaáætlunina byggir á tveimur meginatriðum. Annars vegar að faghóparnir, sem starfa undir verkefnisstjórn, hafa ekki allir gefið orkukostum einkunn og raðað þeim upp eins og lagt er upp með. Hitt er pólitíkin, að ráðherra eða Alþingi hafi ekki tekið við vinnunni frá verkefnisstjórn og klárað,“ sagði Hilmar síðar í umræðum.

Rammaáætlunin séríslensk


Hópurinn skoðaði lagaumhverfi í öðrum löndum, mest Noregi, Danmörku, Skotlandi og Nýja-Sjálandi. Hilmar sagði aðstæður alls staðar ólíkar. Ekkert ríkjanna væri með rammaáætlun eins og Íslendingar enda væri skipulagsvald ríkis þar sterkara en hérlendis.

Austfirskt sveitarstjórnarfólk hefur síðustu mánuði farið í tvær kynnisferðir í tengslum við vindorkumál, til Danmerkur síðasta haust en til Noregs í lok apríl. Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, sagði í umræðum að í Danmörku hefðu sveitarfélögin þó sannarlega neitunarvald á skipulagi. Í Noregi hefðu sveitarfélögin reynt að nota svæðisskipulag, sem nær yfir fleiri en eitt sveitarfélag, þótt það hefði ekki virkað eins og þau hefðu helst viljað.