Ýmsar athugasemdir við matsáætlun vegna vindmylla við Lagarfossvirkjun
Skipulagsstofnun gerir ýmsar athugasemdir við framlagða matsáætlun Orkusölunnar vegna tveggja vindmylla sem fyrirtækið áformar að reisa við Lagarfossvirkjun.
Stofnunin birti í dag álit sitt á matsáætlun fyrirtækisins sem lögð var fram um miðjan apríl og Austurfrétt fjallaði um á þeim tíma eins og lesa má um hér.
Athugasemdirnar varða flest atriði sem fjallað er um í matsáætluninni en stofnunin leitaði álits aðila á borð við Múlaþings, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Landsnets auk Minja-, Náttúrufræði-, Orku- og Umhverfisstofnunar. Þá bárust og umsagnir frá Landvernd og tveimur einstaklingum.
Fuglalíf skal rannsaka í tvö ár
Í matsáætluninni gerði Orkusalan ráð fyrir fuglaathugunum á svæðinu um eins árs skeið enda væri aðeins um tvær myllur að ræða. Þær rannsóknir hófust í vor með þáttöku Náttúrustofu Austurlands. Bæði Náttúrufræðistofnun og Landvernd gerðu athugasemdir við þennan stutta tíma enda væri svæðið um margt einstakt með tilliti til fugla.
Undir þá gagnrýni tekur Skipulagsstofnun í áliti sínu. Framkvæmdasvæðið sé innan svæðis á náttúruminjaskrá, það sé formlega skilgreint sem mikilvægt fuglasvæði og hefur verið tilnefnt á B-hluta náttúruminjaskrár vegna vistgerða á landi, sela auk fuglalífs. Þar séu einar sjö fuglategundir sem uppfylla alþjóðleg verndarviðmið. Mælist stofnunin til þess að rannsaka skuli fuglíf á svæðinu um tveggja ára skeið með sjónarhólsmælingum og jafnframt gera ratsjármælingar á fuglalífi í að minnsta kosti eitt ár sem spannar auk varptíma, fartíma að vori og haustin. Niðurstöður skulu lagðar fram í umhverfismatsskýrslu.
Ásýnd lands einn þýðingarmesti þátturinn
Í matsáætlun Orkusölunnar er ekki gert ráð fyrir sérstakri rannsókn á áhrifum á landslag og ásýnd lands heldur einungis stuðst við fyrirliggjandi gögn. Þessu er Skipulagsstofnun ekki fylgjandi:
„[...] mat á áhrifum á landslag og ásýnd lands er einn þýðingarmesti þáttur umhverfismats vindorkuvera. Stofnunin leggur því sérstaka áherslu á að nálgun og framsetning mats á áhrifum á landslag og ásýnd í umhverfismatsskýrslu fylgi bestu starfsvenjum. Varpa þurfi ljósi á helstu landlagseinkenni fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis sem og
áhrifasvæðis framkvæmdanna, meta verndargildi og viðkvæmni skilgreindra landslagsheilda og hve mikil áhrif fyrirhuguð framkvæmd geti haft á sjónræna þætti, upplifunargildi og gæði landslagsheilda.“
Fer stofnunin því fram á að í umhverfismatsskýrslu séu birtir staðsetningarpunktar fyrir ásýndarmyndir með skýrum rökstuðningi fyrir vali þeirra og hvernig hafi verið staðið að samráði. Þá þurfi að skipta áhrifasvæði fyrirhugaðra framkvæmda með tilliti til sýnileika niður í landslagsgerðir á grundvelli skýrra forsendna og leggja mat á gildi eða verðmæta þeirra.
Ískast, förgun og ferðamennska
Skipulagsstofnun telur nánari útskýringa þörf á mörgum atriðum til viðbótar í áliti sínu. Gera þarf skýra grein fyrir hvernig farga skuli myllunum að notkun lokinni. Gera þarf grein fyrir vindmælingum á svæðinu og þeim gögnum safnað í eitt ár hið minnsta. Útskýra þarf með hvaða hætti skuli afísa vindmyllurnar og hvaða hugsanlegu efni af yfirborði myllanna hafi neikvæð áhrif á umhverfið berist þau þangað. Þá segir í álitinu að gera þurfi viðhorfskönnun meðal íbúa og frístundaeigenda á svæðinu og rannsaka betur viðhorf ferðamanna og ferðaþjónustuaðila til byggingar vindmyllanna.