![](/images/stories/news/2015/smidjuhatid2.jpg)
Tíunda smiðjuhátíðin haldin á Seyðisfirði um helgina
Hin árlega Smiðjuhátíð verður haldin á Tækniminjasafni Austurlands á Seyðisfirði um helgina. Pétur Kristjánsson forsvarsmaður Tækniminjasafnsins segir um að ræða fjölskylduhátíð með menningarlegu og listrænu ívafi.Að þessu sinni verður boðið upp á sex handverksnámskeið í eldsmíði, eldsmíði og tálgun, málmsteypu, hnífasmíði, prentun og bókbandi, radíó / morse og húsgagnahandverki. „Þessi námskeið eru fyrir alla, bæði byrjendur og lengra komna en kennararnir eru þeir fremstu á sínu sviði hér á landi“ segir Pétur.
Á meðan hátíðinni stendur verður veitingartjald staðsett á Angróbryggju, þar sem boðið verður upp á kaffi og með því, íslenska kjötsúpu, flatkökur með allskona áleggi og drykki. Hátíðin fer fram á safnsvæðinu en ókeypis er inn á sýningar safnsins og skemmtiatriðin þó veitingarnar verði seldar gegn vægu gjaldi.
Pétur segir ýmislegt verða um að vera á með an á hátíðinni stendur. „Það verður tónlistarflutningur á bæði föstudegi og laugardegi og svo ball á bryggjunni.“
Listamaðurinn GODDUR mun sjá um útvarpstöðina RADIO TOWER fm sem verður í gangi á meðan á hátíðinni stendur og KK BANDIÐ spilar á föstudagskvöldi.