
100 ár frá mesta frosti Íslandssögunnar: Austfirðirnir fullir af hafís
100 ár voru í gær liðin frá mesta frosti sem mælst hefur á Íslandi sem var á Grímsstöðum og Möðrudal á Fjöllum en frostið fór í -38 gráður. Hafís hamlaði skipaferðum á Austfjörðum og ísbjörn var veiddur á Mjóafirði.Vetrarins 1918 er minnst sem frostavetrarins mikla og það með réttu þar sem veðurmælingar hérlendis hafa hvorki fyrr né síðar sýnt fram á viðlíka frost.
Mánudaginn 21. janúar 1918 mældist -38 gráðu frost á Grímsstöðum og Möðrudal á Fjöllum. Í Möðrudal er mælingin skráð klukkan átta að morgni. Þar sem ekki var lágmarksmælir í Möðrudal viðurkenndi danska veðurstofan ekki kuldametið og var það ekki staðfest fyrr en mörgum árum síðar er Íslendingar fengu frumgögnin, að því er fram kemur í samantekt Veðurstofu Íslands.
Kólu á götum
Kuldatíðin hófst um þrettándann og stóð út janúarmánuð á norðurhluta landsins. Dagana í kringum þann sem frostið mældist sem mest á Fjöllum má lesa um eða yfir -30 gráðu frost út úr veðurtíðindum dagblaðanna.
Í Vísi þann 21. janúar er sagt frá mönnum sem kalið hafi á fótum og höndum á götum Reykjavíkur. Þá hafi menn kalið í rúmum sínum á þeirri kinn sem að vegg vissi. Þegar þiðna tók seinni hluta vikunnar tók við hálka og sáust menn þá ganga „með samanbundnar hauskúpur og brákaða limi eftir bylturnar.“
Í skeyti frá Ísafirði segir að fjöldi fólks hafi þar verið eldiviðarlaus og matvælalaus enda hafi kaupstaðurinn orðið fyrir miklum hnekki 1917. Þar hafi bleki í byttu á skrifborði ekki þiðnað dögum saman.
Landsins forni fjandi
Hafís gerði landsmönnum erfitt fyrir og truflaði skipaferðir. Þann 23. janúar segir frá því í Morgunblaðinu að hafís hafi legið með landinu frá Ísafjarðardjúpi og norður fyrir, landfastur alla leið frá Melrakkasléttu að Gerpi og Vopnafjörður sé fullur af ís. Smájakar séu á Seyðisfirði en lagís svo mikill að skip komist hvergi.
Daginn eftir segir frá því að Eskifjörður sé fullur af lagís, mikill hafís eins langt og augað eygi og borgarís á milli.
Skipin Lagarfoss og Botnía lágu framan af vikunni við festar á Seyðisfirði og komust ekki neitt. Farþegar sem ætluðu með Lagarfossi til Akureyrar gripu á það bragð að fara gangandi og náðu að verða samferða landpósti.
Ísbjörn í Mjóafirði
Þann 22. hafði veðrið reyndar skánað eystra og varð viðsnúningurinn mikill. Sagt er frá því að hitinn hafastigið á Seyðisfirði hafi farið úr 22 frosti að morgni þess dags yfir í að vera einni gráðu yfir frostmarki um kvöldið. Þá hopaði ísinn og skipin komust úr höfn.
Hafísinn kom einnig með gesti. Þann 24. janúar var bjarndýr skortið í Dalakjálka í Mjóafirði, hið sjötta á landinu þann veturinn. Um hún var að ræða og má sjá skinnið af honum í Gunnarshúsi á Skriðuklaustri.
Skrif um kuldann mikla á Fjöllum eru ekki uppsláttarefni blaðanna þessa vikuna en ýmsar fregnir út af frosthörkunum má þó þar finna. Deila menn til dæmis um hvort um sé að ræða kaldasta vetur sem menn muni eftir. Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins má finna langa grein um kuldatíðir í Íslandssögunni. Hvað verstur er talinn veturinn 1880-1881, nefndur fótbítur vegna þess hve marga menn kól til óbóta á fótum.
Skautafélaginu þakkað
Eftir þetta hefur ekki mælst meira en 35 stiga frost hérlendis. Lægsti hitahitastig þessarar aldar mældist í Möðrudal 25. janúar 2002, 30,5 gráður.
Kalt var á landinu í gærmorgun þótt ekki væri það í líkingu við það sem gerðist fyrir 100 árum. Lægstur varð hitinn klukkan tíu á Svartárkoti í Bárðardal -25,6 gráður. Klukkutíma fyrr mældist -23,4 frost í Möðrudal og -17,6 á flugvellinum á Egilsstöðum.
Sem fyrr segir hlýnaði snarpt á landinu eftir hina miklu kuldatíð. Morgunblaðið setti fram áhugaverða kenningu um hvers vegna það hefði gerst, það hafi verið því Skautafélag Reykjavíkur byrjaði eitt kvöldið að gera sér skautasvell á Tjörninni. „Munu margir hugsa hlýtt til félagsins þessa dagana fyrir vikið.“