Skip to main content

Djúpavogsbúar nýta sér tilboð um að fá gamlar bækur af bókasafninu gefins

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. nóv 2013 13:22Uppfært 19. nóv 2013 13:24

bokamarkadur djupavogiÍbúar í Djúpavogshreppi hafa tekið vel í tilboð um að fá gamlar bækur af bókasafni hreppsins gefins. Búið er að lengja opnunartíma lagerhreinsunar bókasafnsins tvisvar því viðtökurnar hafa verið svo góðar.


„Það hefur safnast upp töluverður lager í tengslum við bókasafnið og hann farinn að taka töluvert pláss," útskýrir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps.

„Þetta eru bækur sem eru úr sér gengnar, illa farnar, líta illa út eða hafa ekki hreyfst í fjölda ára. Við bárum okkur upp við fornbókasölu og önnur bókasafn en það vildi enginn þiggja bækurnar. Við völdum að fara þessa leið frekar en farga þeim."

Hann segir að honum hafi reyndar verið hugsað til Tannlæknafélags Íslands. „Það er oft á biðstofum tannlækna sem maður situr og flettir gömlum blöðum.“

Safnið er inni í bræðslu og í byrjun vikunnar var ákveðið að framlengja opnunartímann öðru sinni, að þessu sinni til sunnudagsins 24. nóvember.

Gauti segir viðtökurnar hafa komið á óvart. „Við gerðum ekki ráð fyrir að þetta stæði svona lengi. Við héldum markað í vor í tengslum við Hammondhátíðina þar sem boðnar voru til sölu valdar bækur og þetta eru sem sagt eftirstöðvarnar.“

Opið er á milli 8-17 virka daga og um helgina frá 10-19. Gengið er um dyr sem snúa í norður á löndunarhúsi. Þær bækur sem enn verða eftir verða sendar í endurvinnslu.

Mynd: Magnús Kristjánsson