Rífandi stemming á jólamarkaði Blæs – Myndir
Jólamarkaður hestamannafélagsins Blæs á Norðfirði var haldinn í þriðja sinn á laugardaginn var. Fjöldi gesta lagði leið sína á markaðinn þar sem ríflega 30 söluaðilar buðu fjölbreytta vöru.„Það var rífandi stemming og örtröð af fólki," sagði Sigrún Júlía Geirsdóttir, formaður Blæs.
Markaðurinn er haldinn í félagshúsnæði Blæs, reiðhöllinni Dalahöllinni á Kirkjubólseyrum inni í Norðfjarðarsveit.
Sigrún Júlía segir hluta markaðarins snúast um að auglýsa félagið og húsið en nýverið var komið þar upp félagsaðstöðu. Þar buðu félagar í Blæ upp á kaffihlaðborð. „Við höfðum varla undan á kaffihlaðborðinu."
Fleiru hefur verið bætt í húsið svo sem ljósabúnaði og hitablásurum. „Síðastliðin tvö ár hafa menn farið út til að hlýja sér."
Á markaðinum var hægt að kaupa fjölbreytt handverk auk annarrar smávöru. Félagar úr Lúðrasveit Neskaupstaðar fluttu nokkur lög og sömuleiðis söngvarar úr Djúpinu, leikfélagi Verkmenntaskólans.
„Markaðurinn gengur fyrst og fremst út á að hóa fólki saman og byrja smá jólastemmingu. Hann hefur vaxið frá ári til árs og ég er fullviss um að hann sé kominn til að vera hér í sveitinni.
Söluaðilarnir voru ánægðir og mér sýndist allir hafa verið mjög glaðir," sagði Sigrún Júlía að lokum.