Austurvarp: Reiðilegar vögguvísur á Vegareiði
Vögguvísa, innblásin af reiði, var meðal þeirra laga sem flutt voru á tónlistarhátíðinni Vegareiði sem haldin var í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á laugardag. Fjórar austfirskar rokksveitir komu þar fram ásamt Legend úr Reykjavík.Tónleikarnir, sem haldnir hafa verið árlega síðan 2006, hafa það að markmiði að gefa harðkjarnasveitum af Austurlandi tækifæri á að spreyta sig. Aðrar tónlistarstefnur heyrast einnig þar en meðal annars var boðið upp á sveitatónlist um helgina.
Hljómsveitin Brönd hefur komið fram á öllum hátíðunum og gerði það einnig á laugardag. Hún kom fram í öðrum búningi en venjulega – eða hreint engum búningi því hljómsveitarmeðlimir hafa gjarnan skrýðst skrautlegum fötum og grímum á sviði.
Sveitabandið kom einnig frá Egilsstöðum og Kjerúlfarnir úr Fljótsdal. Frá Norðfirði mættu Oni og Urð en fyrrnefnda sveitin stefnir á að fara í hljóðver á næstunni.