Rithöfundalest(ur) á Austurlandi: Skáldin koma um helgina
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. nóv 2013 09:12 • Uppfært 10. des 2013 10:17
Árviss rithöfundalest fer um Austurland helgina 29. nóv. til 1. desember. Á ferð verða fimm höfundar með nýjustu verk sín.
Vigdís Grímsdóttir sem segir frá Dísusögu, Sigríður Þorgrímsdóttir sem les úr Alla mína stelpuspilatíð og Andri Snær Magnason sem opnar Tímakistuna. Bjarki Bjarnason kemur með norðfirsku söguna Sérðu harm minn, sumarnótt? sem Óðinsauga gefur út og Jón Kalman Stefánsson er einnig á austfirskum slóðum í Fiskarnir hafa enga fætur sem kemur út hjá Bjarti.
Að rithöfundalestinni standa Menningarmálanefnd Vopnafjarðar, Gunnarsstofnun, Skaftfell menningarmiðstöð og Umf. Egill Rauði.
Viðkomustaðir eru fjórir að þessu sinni. Lesið verður í Kaupvangi á Vopnafirði föstudagskvöld 29. nóv. kl. 20.30. Laugardag 30. nóv. kl. 14.00 verða höfundarnir á Skriðuklaustri í Fljótsdal og um kvöldið lesa þeir í Skaftfelli á Seyðisfirði kl. 20.30. Á sunnudaginn verða þeir síðan í Safnahúsinu á Norðfirði kl. 13.30.