Soroptimistar selja kærleikskúlur og jólaóróa

soroptimistar jolaoroiÁrleg sala Soroptimistaklúbbs Austurlands á kærleikskúlum og jólaóróum verður um næstu helgi. Selt er til styrktar Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra.

Félagar í Soroptimistaklúbbi Austurlands selja kærleikskúlur og jólaóróa í Nettó á Egilsstöðum dagana 7., 8 og 15.desember. Einnig verða þeir á markaðinum í Barra þann 14. Jafnframt verða munirnir til sölu á opnunartíma í Samkaup á Seyðisfirði og í verslunum Birtu á Egilsstöðum og á Reyðarfirði.

Sala þessara muna er árlegt fjáröflunarverkefni Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og renna þúsund krónur af andvirði hvers hlutar sem selst hér til fatlaðra barna á Austurlandi. Soroptimistaklúbbur Austurlands kemur nú að þessu verkefni í áttunda sinn.
Ágóðinn hefur til dæmis verið notaður til tækjakaupa fyrir sjúkraþjálfun og til kaupa á ýmiskonar hjálpartækjum fyrir einstaklinga. Einnig hefur sjóðurinn styrkt einstakling til þátttöku á vetrar ólympíuleikum fatlaðra. Féð sem kemur inn nú verður varið til kaupa á lyftu í sundlaugina á Egilsstöðum.

Að þessu sinni er það listamaðurinn Ragnar Kjartansson sem er hönnuður kúlunnar og nefnir hann verk sitt Hugvekju. Höfundur Jólaóróans er Siggi Eggertsson sem er sjálfstætt starfandi listamaður í Berlín. Jólaóróann skreytir að þessu sinni jólasveinninn Gluggagægir og fer sem fyrr saman listmunur og ljóð. Ljóðasmiðurinn er Vilborg Dagbjartsdóttir sem leiðir lesendur á æskuslóðir á Vestdalseyri.

Gluggagægir

Jólasveinarnir eru víst til
það var meira að segja
gerð af þeim mynd
á fínan postulínsdisk
úti í kóngsins Kaupmannahöfn!
Þar koma þeir í halarófu
niður túnið hans afa
utan við Vestdalsána.
Allir saman einn og átta.
En ég veit samt betur.
Þeir eru ekki níu
heldur þrettán
og eru ekki samferða
en tínast til byggða
einn og einn.

Hver þeirra á sinn dag
og hefur sérhæft sig
í því sem hæfir honum best
og er nafn hans eiginlega starfsheiti.

Sá tíundi er stráksláninn
hann Gluggagægir – óttalegt kuldastrá –
í grárri lopapeysu og með röndótta prjónahúfu
langur dúskurinn lafir niður á bak.
Skömmin sú arna læðist upp að húsinu
og gægist inn um stofugluggann.
Til þess að sjá betur inn púar hann á rúðuna
síðan rekur hann út úr sér langa tunguna
og sleikir hrímið af glerinu
til að stækka gægjugatið!

Á stofugólfinu liggur dótið krakkanna út um allt.

„Skiljið ekki gullin ykkar eftir á glámbekk,
Þá lenda þau í glatkistunni!" kallar mamma
framan úr eldhúsi.
Þá kumrar Gluggagægir lágt
það er einmitt hann sem á glatkistuna og glámbekkinn.

Nú felur hann sig að húsabaki
þangað til allir eru sofnaðir
þá laumast hann inn og stelur dótinu
sem krakkarnir hirtu ekki um að ganga frá.
Hann treður því undir peysuna
og hnýtir fyrir neðan með snærispotta
til að týna því ekki.

Þegar hann kemur heim í helli sinn eftir jólin
þá sest hann á glámbekkinn
og raðar dótinu sem honum áskotnaði
í glatkistuna sína.
Hann unir sér við að skoða það
á löngum dimmum vetrarkvöldum, grey skömmin.
Krakkarnir sjá ekki eftir gamla dótinu.
Þau fengu nýtt í jólagjöf.

- Vilborg Dagbjartsdóttir

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.