Bókavaka í Safnahúsinu: Austfirsk útgáfa í öndvegi

safnahus egs 0008 webÍ Safnahúsinu á Egilsstöðum verður í dag boðið upp á Bókavöku. Þar verða kynntar nýútgefnar austfirskar bækur, lesið úr þeim og sagt frá útgáfu þeirra.
Útgáfa ársins er gróskumikil og kennir þar ýmissa grasa. Að minnsta kosti sjö austfirsk ljóðskáld hafa sent frá sér nýja ljóðabók á árinu. Þá gefur Félag ljóðaunnenda á Austurlandi einnig út veglegt fimm binda ritsafn með verkum skáldkonunnar Guðfinnu Þorsteinsdóttur, sem skrifaði undir skáldanafninu Erla.

Þá er komin út 100 ára saga Kaupfélags Héraðsbúa sem Jón Kristjánsson, fyrrverandi ráðherra og ritsjóri hefur ritað. Hallveig Guðjónsdóttir og Vilhjálmur Hjálmarsson hafa bæði sent frá sér bækur með endurminningabrotum og loks er komið út ritið Skriðdæla, sem hefur m.a. að geyma ábúendatal, sveitarlýsingar, örnefni og sögur af mönnum og málefnum fram til ársins 1990.

Ingunn V. Sigmarsdóttir rithöfundur frá Borgarfirði eystra hefur gefið út gráglettna skáldsögu um íbúa og starfsfólk á elliheimili. Þess utan hafa einnig komið út þýðingar eftir Austfirðinga en sem dæmi má nefna að Sigríður Lára Sigurjónsdóttir þýddi annað bindi af óstyttri sögunni um Önnu í Grænuhlíð.

Nokkur ljóðskáld mæta og lesa sjálf úr bókum sínum en aðrir lesarar sjá um þá sem lengra eru að komnir eða sáu sér ekki fært að mæta. Kynnir á bókavökunni er Arndís Þorvaldsdóttir.

Bókavakan stendur yfir frá kl. 17-19 og er sem fyrr segir í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Aðgangur er ókeypis, kaffi á könnunni og allir velkomnir.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.