Á Lödu Sport á flótta undan eldgosi á Seyðisfirði - Myndband
Seyðisfjörður tortímist í eldgosi í kvikmyndinni The Secret Life of Walter Mitty ef marka má nýjasta kynningarmyndband myndarinnar sem sett var á netið í dag. Ben Stiller stekkur þar upp í græna Lödu Sport þar sem leikarinn Gunnar Helgason er undir stýri.Stiklan hefst á skoti úr miðbænum þar sem Stiller er einn á gangi. Viðvörunarflautur fara þá í gang og sést öskuský úr Fjarðarheiðinni. Gunnar kemur Stiller til bjargar en á í nokkrum vandræðum með að koma honum í skilning um hvað sé að gerast.
Myndin var að hluta tekin upp á Seyðisfirði haustið 2012. Byrjað er að sýna hana á kvikmyndahátíðum og hefur hún fengið ágæta dóma. Myndin verður frumsýnd í nokkrum Evrópuríkjum skömmu fyrir jól en í Bandaríkjunum fer hún í almennar sýningar á jóladag og hérlendis á annan í jólum.