Austfirðingur með smásögu í útgáfu meðlima Rithringsins
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. des 2013 20:44 • Uppfært 25. des 2013 20:49
Elísabet Kjerúlf frá Vallholti í Fljótsdal, á eina sögu í nýútkomnu smásagnasafni meðlima Rithringsins „Þetta var síðasti dagur lífs míns" sem kom út fyrir skemmstu.
Allar smásögurnar átján í bókinni byrja á sömu setningunni sem einnig er titill bókarinnar. Fyrsta smásagnasafn Rithringsmeðlima kom út í fyrra og því var ákveðið að halda áfram í ár.
Það er samvinnan og hjálpsemin sem halda höfundunum saman á Rithringum. Þeir gagnrýna fyrir hvern annan, deila með sér upplýsingum og ráðleggja hver öðrum í samkeppninni. En á Rithringnum eru allir jafnir og allir fá að vera með og það er alltaf opið fyrir nýjum höfundum þar.
Elísabet Kjerúlf er fædd 8. desember 1957 að Vallholti í Fljótsdal. 1985 útskrifaðist hún sem tannfræðingur frá Tannlæknaháskólanum í Árósum og starfar nú á tannlæknastofu Halls og Petru á Selfossi og í Reykjavík.
Hún hefur gengt trúnaðarstörfum innan Félags íslenskra tannfræðinga og er formaður félagsins.
Elísabet er nýliði á ritvellinum en var með tvær smásögur í fyrri Rithringsbókinni í fyrra auk þess sem efni frá henni hefur birst í blöðum og netmiðlum.
Elísabet er með söguna Kvöldverðurinn í Smásögur 2013.