Gunnlaugur Stefáns: Verður bara leyft að hvísla Heims um ból innandyra?

forseti stodvarfjordur 0059 webÞað er áhyggjuefni að farið sé í felur með kristna trú og tengsl hennar við jólin að mati séra Gunnlaugs Stefánssonar, sóknarprests í Heydalasókn. Ekkert sé þó nýtt við að stjórnvöld telji kristna trú hættulega. Hún hafi þó til þessa staðið af sér flestar slíkar sóknir.

„Er það einlægur vilji þjóðarinnar núna að bannað verði að hafa nokkuð fyrir börnum opinberlega sem minnir á kristindóminn? Hvað verður þá um þjóðsönginn og þjóðfánann, dagatalið og jólin? Við eigum það kannski framundan að mega bara hvísla Heims um ból heima innandyra og hvergi á opinberum vettvangi," spurði séra Gunnlaugur í jólapredikun sinni.

Hann gerði þar að umtalsefni aðskilnað trúar og skólastarfs.

„Skólafólkið veit tæpast í hvorn fótinn á að stíga á aðventu vegna skilaboða stjórnvalda um aðskilnað trúar og skóla, en tekur svo af skarið víðast hvar í skólum landsins fyrir jól og leyfir helgri sögu að ljóma þar líka með margvíslegum hætti, í söngvum, fallegum táknum og samtali um söguna sjálfa."

Gunnlaugur sagði að á „öllum tímum" hefði einhvers staðar á jörðinni „flest í mannlegu valdi" verið reynt til að „afmá þessa sögu og útrýma Guði úr vitund lífs." Dauði Krists á krossinum væri dæmi um að ekkert hefði verið til sparað í þeim efnum.

„Það er ekkert nýtt við það, að efast sé um sannleiksgildi guðspjalls jóla eða að stjórnvöld gefi í skyn með valdboði sínu, að kristin trú sé fólki hættuleg, sérstaklega börnum í skólanum."

Hann spurði hvort jólin, og sá friður sem fylgdi þeim, væri ofar jarðneskum skilningi. „Engin saga hefur oftar verið sögð og engin saga hefur valdið jafn miklu. Hún virðist svo einföld og falleg, en samt finnst mörgum hún vera ofar jarðneskum skilningi.

Nokkrir keppast um að afneita sögunni og fara mikinn í fjölmiðlum, en halda samt jól með hátíðarbrag og gefa ekkert eftir í að hafa ytri umgjörð sem glæsilegasta.

Er það þannig samfélag sem þjóðin vill búa sjálfri sér með því að banna það sem reynst hefur best og þráir að auðga mannlíf af ást og friði?"

Gunnlaugur velti einnig upp hvað það væri sem raunverulega skapaði hamingju og frið í hjörtum manna. Hann dró í efa að það væri vísinda- og tæknibyltingin með öllum sínum hraða, þrátt fyrir allar þær upplýsingar sem henni hefur fylgt.

„Hrærir þessi saga við tilfinningum sem við viljum af hjartans einlægni varðveita, saga sem tjáir boðskap sem við viljum ekki án vera, þrátt fyrir allt? Að lífið er stærra og mera undur en svo, að tæknin og mannsins máttarverk með öllum sínum tilþrifum fái að uppfylla þær þarfir sem hjartað þráir."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.