SÚN styrkti 29 norðfirsk verkefni

sun styrkir jan14Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) veitti á sunnudag 29 styrki upp á 11,7 milljónir króna til einstaklinga og norðfirskra félagasamtaka. Styrkveitingar úr menningar- og styrktarsjóði félagsins námu alls 21,4 milljón króna fyrir árið 2013.

Auk þessara styrkja hefur SÚN lagt ýmsum öðrum verkefnum á Norðfirði lið. Félagið veitti til dæmis átta milljónum króna til kaupa á flugbrautarljósum fyrir Norðfjarðarflugvöll og öðru eins í svæfingatæki á Fjórðungssjúkrahúsið.

SÚN færð íþróttafélaginu Þrótti níu milljónir króna í afmælisgjöf og gaf fjörutíu spjaldtölvur í Nesskóla en verðmæti þeirra er ætlað 3,5 milljónir króna.

Þá hefur félagið haldið áfram endurbyggingu eikarbátsins Jón Björns og tekið þátt í stofnun félagsins sem keypti Hafnarbraut 2 en þar er ráðgert að hefja rekstur íbúðahótels á þessu ári.

Samvinnufélagið hefur undanfarin ár styrkt alla þá Norðfirðinga sem valdir eru í landslið eða taka þátt í alþjóðlegum íþróttamótum. Í tilkynningu frá SÚN segir að vonast sé til að slíkur stuðningur virki hvetjandi fyrir ungt íþróttafólk og auðveldi því að standa straum af þeim kostnaði sem óhjákvæmilega fylgir góðum árangri á íþróttasviðinu.

Félagsfundur var haldinn í Samvinnufélaginu sama dag og síðasta úthlutun styrkja fór fram. Þar var farið yfir stefnu og stöðu félagsins og kom fram eindreginn vilji til að halda áfram að styrkja og styðja samfélagsverkefni á starfssvæði þess.

Fram kom á fundinum að félagið hefur veitt yfir 300 milljónum króna til slíkra verkefna frá árinu 2005 og hafa þær fjárveitingar svo sannarlega sett sinn svip á samfélagið og komið því til góða.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.