Útsvar: Sigurvegarar síðustu tveggja ára mætast í kvöld
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. jan 2014 11:18 • Uppfært 10. jan 2014 11:23
Sigurvegarar síðustu tveggja vetra í spurningakeppninni Útsvari, Fjarðabyggð og Grindavík, mætast í kvöld. Liðin hafa áður mæst og þá fór fram eini bráðabaninn í sögu keppninnar.
„Við kepptum við þá fyrir nokkrum árum og náðum þeim merka árangri að gera jafntefli sem mér skilst að sé í eina skiptið í sögu Útsvars," segir Kjartan Bragi Valgeirsson, liðsmaður Fjarðabyggðar.
„Eftir það tók við bráðabani sem var hálfkjánalegur enda ljóst að bæði lið voru komin áfram því annað var stigahæsta taplið umferðarinnar."
Leikar fóru að lokum þannig að Grindavík vann en Kjartan segir Fjarðabyggðarliðið staðráðið í að snúa við blaðinu.
„Við munum mæta vel stemmd í keppnina í kvöld og gera að minnsta kosti betur en síðast þegar við mættum þeim."
Kjartan segist spenntur fyrir keppninni í kvöld enda Grindavíkurliðið gríðarsterkt. Fjarðabyggðarliðið sé þó vel undirbúið. „Við hittumst um jólin og lögðum aðeins línuna. Síðan fylgist maður alltaf með fréttunum og reynir að pikka upp líklega hluti."
Lið Verkmenntaskóla Austurlands hefur keppni í Gettu betur klukkan 13:00 á morgun. Í vikunni mætti liði úrvali kennara skólans í æfingakeppni.