Mikil stemming á forsýningu: Skrítið að sjá sjálfan sig á skjánum
Húsfyllir var á Kaffi Egilsstöðum og mikil stemming í salnum þegar fyrsti þátturinn af The Biggest Loser var forsýndur þar í gærkvöldi. Njarðvíkingurinn Sigurður Jakobsson er þar á meðal keppenda.„Viðtökurnar voru frábærar og ég er mjög ánægður með stuðninginn," segir Sigurður sem var í salnum í dag.
Fjöldi vina hans, einkum úr menntaskólanum, og nánasta fjölskylda hans mættu til að fylgjast með þættinum. Glatt var á hjalla og klappað, hlegið og hrópað þegar Sigurður birtist í mynd.
„Það var mjög gaman að sjá sjálfan sig á skjánum en á sama tíma skrítið," segir hann.
Þátturinn er keppni meðal tólf of þungra einstaklinga um hver léttist mest hlutfallslega. Þeir dvöldu á Ásbrú í tíu vikur í haust og voru einangraðir frá umheiminum á meðan. Í lok hvers þáttar er einn einstaklingur sendur heim.
Mikil leynd ríkir yfir árangrinum en keppendur halda áfram að létta sig eftir að heim er komið. Lokaþátturinn verður síðan í beinni útsendingu á SkjáEinum í apríl.