Margir vilja verða aukaleikarar í Fortitude: Einnig tekið upp á Egilsstöðum

fortitude aukaleikararÍslenska kvikmyndafyrirtækið Pegasus hefur hafið undirbúning að tökum á bresk/bandarísku sjónvarpsþáttunum Fortitude á Reyðarfirði. Austfirðingar hafa tekið vel í að verða aukaleikarar í þáttunum. Tökurnar fara að mestu fram á Reyðarfirði, en einnig á Eskifirði, Egilsstöðum og hugsanlega víðar.


Að sögn Elínar Reynisdóttur, sem vinnur að því að raða í hlutverk í þáttunum, hafa tugir manna og kvenna á öllum aldri komið við í gamla frystihúsinu á Reyðarfirði til þess að gefa kost á sér sem aukaleikarar. Aðeins er um að ræða hlutverk án texta og í flestum tilfellum ekki um áberandi rullur að ræða.

„Okkur vantar fólk til þess að vera í bakgrunni að gera þessa daglegu hluti. Ganga um, tala saman, keyra bíla og þess háttar,“ segir Elín.

Útitökur fara fram hérlendis en innitökur að mestu í Bretlandi. Upptökutímabilið hér á landi skiptist í þrennt. Tökuliðið verður hér á landi í þrjár vikur upp úr 20. janúar en að því loknu er haldið til Bretlands í innitökur. Síðar verður tekin önnur lota hérlendis og síðan verður sú þriðja og síðasta í júní.

Fyrir aukaleikarana er þetta síðan bara spurning að vera tilbúin þegar kallið kemur. „Það getur verið hringt með skömmum fyrirvara, kannski bara daginn áður. Þess vegna reynum við að ná í aukaleikara sem eiga heima sem næst tökustað.“

Mest verður tekið upp á Reyðarfirði en einnig flugstöðinni á Egilsstöðum og á Eskfirði. Því þarf að finna aukaleikarana víða. Þó að margir hafi þegar gefið kost á sér segir Elín að pláss sé fyrir fleiri. „Við þurfum ansi marga þegar allt er talið og við erum enn að taka við skráningum.“ 

En munu aukaleikararnir eitthvað fá að spreyta sig í senum með stórstjörnum á borð við Michael Gambon og Stanley Tucci? „Já, já það verður eitthvað um það. En það þýðir ekkert að standa og mæna á stjörnurnar, það verður hver að standa sig og sinna sínu.“

Áfram verður tekið við aukaleikurum í vesturenda gamla frystihússins á Reyðarfirði til kl. 20:00 í dag og á morgun frá kl. 10:00-20:00.

Reyðfirðingar munu síðan á næstunni einnig verða varir við nokkrar breytingar á umhverfi sínu, en samkvæmt heimildum Austurfréttar eru farnar að sjást ýmsar ókennilegar merkingar á húsum og fánaborgir með norskum fánum og öðrum óþekktum hvítabjarnarmerkjum. Þar er að líkindum um að ræða merki bæjarins Fortitude.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.