Austfirðingar fulltrúar Íslands í norrænni tónleikaferð

polaroid-leipzig-sigurrosRafdúettinn Good Moon Deer, skipaður Seyðfirðingnum Ívari Pétri Kjartanssyni og Fáskrúðsfirðingnum Guðmundi Inga Úlfarssyni er fulltrúi Íslands í norrænni tónleikaferð með þremur öðrum sveitum sem hefur viðkomu í þremur löndum.

„Við förum út núna 22. janúar og túrinn tekur einn mánuð," sagði Guðmundur í samtali við Austurfrétt.

Fyrstu tónleikar Nordisk 2014 verða í Verløse í Danmörku daginn eftir en fyrstu tvær vikurnar verða haldnir tíu tónleikar víða um Danmörku. Síðan verður farið til Færeyja og spilað í Norðurlandahúsinu í Færeyjum áður en ferðinni lýkur með tvennum tónleikum í Reykjavík og einum á Akureyri.

Með í för verða danska sveitin Sekuoia, Sea Change frá Noregi og Byrta frá Færeyjum en í henni er meðal annars Janus úr austfirsku sveitinni Bloodgroup.

Guðmundur segir hann og Ívar hafa spilað saman í rúm tvö ár. „Ég byrjaði á því að fikta við að gera tónlist einn í tölvunni en síðan kom Ívar inní þetta á trommurnar."

Þeir hafa síðan komið fram oft í Reykjavík, meðal annars á síðustu tveimur Airwaves-hátíðum auk þess að spila í Leipzig í Þýskalandi í haust.

Þeir gerðu tónlistina fyrir dansverkið Á F E R Ð sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu og Danslistahátíð í Reykjavík í vor. Stefnan er sett á útgáfu á nýju ári en þeir og Muted, sem er Héraðsbúinn Bjarni Rafn Kjartansson, áttu lög á safnskífunni Raftónar 2013 en hún er eins konar úrvalsskífa íslenskrar raftónlistar frá síðasta ári.

Í tilkynningu um ferðina segir að á ferðinni verði fjórar efnilegar sveitir sem hver á sinn hátt endurspegli hinn kalda norræna hljóðheim. Markmiðið er að kynna grasrótina í norrænni tónlist og veita almenningi aðgang að þeirri rythmatónlist sem sé síður þekkt. Þá er lagt upp með að draga borgarbúana út á jaðrana en í Danmörku eru til dæmis engir tónleikanna í Kaupmannahöfn.

Í umsögn um Good Moon Deer segir að dúettinn spili framsækna raftónlist. Lifandi trommuleikur búi til sérstaka hljóðmynd og skapi að auki kraftmikið tónleikaumhverfi. Gagnrýnendur hafa meðal líkt þeim við bandarísku tilraunarokksveitina Battles.

Nordisk hljómleikaferðin var fyrst farin í fyrra en HumanWoman var fulltrúi Íslands þá. Ferðin þótti heppnast vel og voru sveitir þaðan meðal annars bókaðar til að spila á Hróarskelduhátíðinni í kjölfarið.

„Svona ferð er fyrst og fremst skemmtileg. Þetta er engin heimsyfirráðaferð en hver veit nema eitthvað annað komi út úr henni," segir Guðmundur að lokum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.