Dúkkulísurnar fengu hæsta styrkinn úr menningarsjóði kvenna

hladvarpi menningarstyrkir 2014Austfirska hljómsveitin Dúkkulísurnar fékk hæsta styrkinn þegar úthlutað var úr Hlaðvarpanum, menningarsjóði kvenna á Íslandi, í síðustu viku. Til stendur að gera heimildamynd um sveitina.

Dúkkulísurnar fengu 600.000 króna styrk til gerðar myndarinnar „Þið eruð nú meiri dúkkulísurnar." Hljómsveitin var ein fyrsta íslenska sveitin sem eingöngu var skipuð konum.

Rúmum þrjátíu árum eftir stofnun starfar hún enn og sendir frá sér nýtt efni reglulega þótt meðlimir séu dreifðir um landið. Í myndinni verður saga sveitarinnar rakin í máli, myndum og tónum.

Að þessu sinni var úthlutað tæpum sjö milljónum króna til átján menningarverkefna kvenna úr Hlaðvarpanum.

Hlaðvarpinn er kenndur við hús við Vesturgötu í Reykjavík sem hópur kvenna keypti árið 1985 og gerði upp. Þau voru síðan nýtt undir margvíslega menningar- og fræðastarfsemi kvenna. Rekstur húsanna varð síðan erfiður og þau að lokum seld en andvirðið notað í menningarsjóðinn.

Fyrst var úthlutað úr honum árið 2008. Í tilkynningu frá sjóðnum segir að væntanlega sé þetta í sjöunda og næst síðasta skiptið sem úr honum verði úthlutað en „sjóðurinn hefur, eðli málsins samkvæmt, minnkað ár frá ári."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.