Völva Austurfréttar 2014: Austurland
Árið 2014 er ár átaka og hreinsana, árið þegar ljósið sigrar myrkrið, árið sem eyðingarorka víkur fyrir uppbyggingu. Árið sem blekkingin víkur fyrir sannleika og raunveruleikinn blasir við.Vegna fjárskorts verður stöðnun í þjóðfélaginu næstu tvö ár en svo rætist úr þegar tekst að ná miklum fjármunum úr erlendum skattaskjólum.
Nýir tímar nálgast þar sem rafmagn verður notað í auknum mæli til samgangna. Litlir bilar innanbæjar sem ganga fyrir rafmagni og eða sólarorku.
Áætlanir verða skoðaðar varðandi lestarsamgöngur knúnar rafmagni, til að nota umframrafmagn á kerfinu.
Langt inni í framtíðinni sér Völvan lestarteina um hálendi Íslands, þar sem rafmagnsylur bræðir ís af teinum yfir veturinn, rafmagn knýr lestina sem flytur vörur og fólk til helstu þéttbýlisstaða kring um landið eftir teinum sem kvíslast frá megin samgönguæðinni af hálendinu.
Fjöregg Framsóknarflokksins á Austurlandi
Skuggi stöðnunar grúfir yfir Austurlandi, þögn einkennir ráðamenn Íslands og það eitt segir þjóðinni að vandamálin eru stærri en orð fá lýst.
Völvan bendir á að Austurland sé landshlutinn sem kom forsætisráðherra þessa lands til valda. Fjöregg Framsóknaflokksins er í höndum þessa landshluta, standi hann sig ekki í eigin kjördæmi mun feigð sækja á flokkinn.
Það eru enn nokkur ár í að það skýrist hvað verður með ,,Norðurslóðaævintýrið" eins og Völvan kallar það. Hún sér ekki mikil umsvif her á Austurlandi í bráð vegna þess, hún sér valið standa milli Noregs og Íslands en einhverja þjónustu mun Ísland veita frá Norðausturhorninu í framtíðinni þó ekki verð það kannski í nánustu framtíð.
Völvunni sýnist Kárahnjúkavirkjun og mengandi verksmiðjan á Reyðarfirði hafa átt stóran þátt í að koma Íslandi á hausinn. Álverð mun halda áfram að lækka. Verksmiðjan á Reyðarfirði heldur samt áfram að starfa og lifir af þennan samdrátt.
Bændur á Héraði munu krefjast bóta fyrir landbrot Lagarfljóts og skert lífríki, leirfok verður sagt spilla heilsu. Málin verða endurskoðuð en það mun taka langan tíma. Frestun á aðgerðum mun valda miklu meiri skaða en orðinn var á síðasta hausti, fólk mun segja „of dýrt of seint."
Auðlindirnar skila sínu
Aflabrögð verða góð á árinu, en eitthvað mun lengjast á miðin hérna að austan.
Einhver afföll verða í hreindýrastofninum í vetur en samt verður leyft að fella eitthvað fleiri hreindýr nú í haust en á síðasta ári.
Vatnjökulsþjóðgarður er kominn til að vera, en það gerist ekki mikið í þeim málum þetta árið.
Íþróttafélög á Austurlandi munu búa við fjárskort á árinu og þurfa að draga saman, árangurinn verður eftir því, sjálfboðavinna mun þess vegna aukast um tíma en starfsemin verður nærri óbreytt.
Austurbrú mun fá gagnrýni á árinu, sagt verður að yfirbyggingin sé of dýr.
Áætlunarflug verður áfram til hefðbundinna staða en flugferðum fækkar eftir ferðamannatímabilið.
Efling sjúkrahúsa á hverjum stað fyrir sig
Völvunni sýnist mikil átök verða í heilbrigðismálunum, endirinn verði sá að fjárveitingar komi beint til heilsugæslustöðva og í kjölfarið efling sjúkrahúsa á hverjum stað fyrir sig.
Djúpivogur mun eflast með sjúkrahúsi og endurheimta dvalarheimili fyrir aldrað fólk. Sjúkrahúsið á Egilsstöðum verður aftur notað sem sjúkrahús, Völvan sér þar koma tól og tæki og vel menntaðir læknar eru þar að störfum.
Sjúkraþjónusta og læknar verða á Reyðarfirði og Eskifirði en á Norðfirði reynir á að leysa þann vanda sem upp a vantar í fjármálunum, þar verður áfram sjúkrahús Fjarðabyggðar.
Ódýrara mun þykja að leysa málin heima í héraði og fá þá sérhæfða lækna á staðinn, þegar tól og tæki eru komin í hús svo hægt sé að gera sem flestar aðgerðir heima í héraði. Ástæðan er sú að Landsspítalinn getur ekki tekið við svo mörgum vandamálum utan af landi og sjúkraflug kostar mikið svo hagkvæmt þykir að hafa það í lágmarki.
Snjóþungur vetur
Veðurfar verður erfitt í vetur, veturinn snjóþungur, vorið kalt, sumarið kemur seint með hlýindi sem þó verða öfgakennd undir haustið og mun mörgum þykja nóg um vegna hitasvækju. Hausttíð verður góð þar til snöggkólnar, Völvunni þykir ekki ráðlegt að fresta göngum og smalamennskum.
Vetrarfærð verður erfið vegna hálku og storma. Snjómokstur mun þykja óhemju dýr sérstaklega milli Austurlands og Akureyrar.
Rafmagn verður í auknum mæli lagt í jörð, álmöstrin þykja skemma ásýnd landsins og frá þeim stafar óþægileg geislun.
Göng undir Öxi á undan Fjarðarheiði?
Völvunni sýnist Norræna sigla áfram til Seyðisfjarðar. Rannsóknir á göngum undir Fjarðarheiði verða ekki að veruleika fyrr en á vormánuðum næsta árs. Þessu rannsóknarverkefni verður fylgt eftir með öllum tiltækum ráðum og það hefst með harðfylgi.
Það verður bið á göngum undir Öxi en Völvunni sýnast göng þar koma á undan Fjarðarheiðargöngum.
Einhverjar tafir verða á gerð Norðfjarðarganga, líklega kemur í ljós vatnsæð í berginu og það tekur tíma að leysa úr því. Fólk verður stressað meðan ráðin er bót á því.
Mannabreytingar verða í öllum sveitarstjórnum á Austurlandi. Vantrú á pólitík veldur því að fólk sem þykir trúverðugt verður kosið persónulega, en pólitík fær minna vægi en áður.
Hagkvæmara að framleiða matvöruna heima í héraði?
Vegna grisjunar skóga fellur til mikið af eldivið og athugað verður með útflutning til Færeyja.
Áleitnar spurningar vakna um hvort ekki sé hagkvæmara að vinna matvöru heima í héraði en þessi óskapa flutningur fram og aftur á mjóum vegum og hálku yfir veturinn.
Umræða kemur upp um styrki til bænda vegna aukinnar kjötframleiðslu vegna skorts á ómengaðri matvöru í heiminum.
Mjólkurframleiðsla verður aukin vegna þess að mjólkurvörur okkar verða taldar í sér gæðaflokki. Styrkir sem þurfa að koma til vegna þessarar framleiðsluaukningar verða gagnrýndir.