Völva Austurfréttar 2014: Ísland

volvumynd webVölva Austurfréttar spáir því að ríkisstjórn Íslands muni springa á miðju kjörtímabili. Þjóðin glímir við heilsuleysi, skerta heilbrigðisþjónustu og eiturlyfjavanda sem meðal annars stafar af breyttu skemmtanamynstri þjóðarinnar. Enn er eftir að gera upp við daður fyrri ríkisstjórnar við Evrópusambandið og auðmenn sem fyrir hrun gerðu þjóðinni til bölvunar á eftir að draga til ábyrgðar. Enn vaða þeir uppi sem hafa eigin hagsmuni að leiðarljósi. Bæta þarf úr vegakerfinu og aðgengi að ferðamannastöðum sem eru undir miklu álagi vegna aukinnar umferðar.

Fréttaþöggun ríkir á Íslandi síðan hið svokallaða hrun varð. Það er þagað yfir svokallaðri fjárhagslegri yfirtöku Íslands, stjórnvöld og hátekjufólk stendur saman.

Enginn veit víst lengur hvað orðið landráð þýðir, ó já, en þá á að breyta stjórnarskránni svo allt líti vel út. Sýndarveruleikinn verður verri þess lengur sem þögnin ríkir.

Þingmenn sem eru allt of margir fyrir litla skuldsetta þjóð sumir þeirra ættu að dæmast burt af þingi fyrir svikin kosningaloforð.

Ef sporna á við skuldasöfnun þarf ríkið að styrkja bændur til kjötframleiðslu um allt land og kaupa allar jarðir til baka sem seldar hafa verið útlendingum og auðmönnum svo þar búi Íslendingar sem framleiða mat.

Það boðaði ekki gott þegar nýja stjórnin byrjaði á því að hækka launin við sjálfa sig og skelfileg veruleikafirring ráðamanna heldur áfram.

Völvan sér fyrir sér spurningar á árinu um hvort þétta sé árangur mikillar menntunar og innilokunar í skólum fram að vel launuðu embætti. Tölvuruglið bætir þar ekki úr.

Uppgjör við landráðabröltið

Fram mun koma á árinu að síðasta ríkisstjórn brást algerlega vonum þjóðarinnar, reyndi lítt að jafna tekjur fólks og lífskjör heldur lagði allt undir að koma Íslandi undir erlent vald Evrópusambandsins sem að vísu „mistókst."

Fram kemur að svo langt hafi verið fram gengið að reynt hafi verið að breyta stjórnarskránni til að koma því í kring, einnig munu ekki öll kurl komin til grafar hvað kostnaðinn af þessu landráðabrölti, eins og Völvan kallar það, varðar.

Fyrri ríkisstjórn verður seint sögð hafa borið hag fólksins í landinu fyrir brjósti. Sagt verður um Steingrím J. Sigfússon að hann hafi svikið öll kosningaloforð, þeir sem reyndu að efna þau loforð eru nú horfnir af þingi, eftir situr Steingrímur rúinn öllu trausti og fylgi.

Jóhanna ráðskaðist með allt mögulegt og ómögulegt, hún vildi koma okkur í Evrópusambandið og svipta okkur þannig sjálfstæðinu, hélt öllu undir leyndarhjúpi. Hvað var það sem þjóðin mátti ekki vita?

Samfylkingin og Vinstri grænir misstu við þetta alla tiltrú og traust og það mun ekki endurvinnast á árinu.

Traust fólks á pólitíkusum þessa lands mun ekki endurheimtast á árinu háværar raddir verða áfram uppi um að pólitíkusar geti ekki leyst vanda þessa lands.

Auknar kröfur munu settar fram um það á árinu að pólitíkusar sem ekki standa við gefin loforð sæti ábyrgð en hverfi ella strax af hinu pólitíska sviði.

Auðmenn Íslands munu áfram drepa niður eigin þjóð ef þeir telja sig hagnast á því segir Völvunni er mikið niðri fyrir og vitnar í Kennedy forseta sem sagði „ekki spyrja hvað landið geti gert fyrir þig, heldur hvað þú getir gert fyrir landið - og var drepinn fyrir," bætir Völvan við.

Landið galopið glæpasamtökum

Verstu landráðin sýnast völvunni vera að ganga í Schengen samkomulagið og hleypa fjölda útlendinga inn í atvinnuleysið á Íslandi. Ríkið heldur svo þessum hópi uppi við fátæktarmörk til að auka á skuldir.

Umræður verða um að Ísland standi galopið til að taka við skipulögðum glæpasamtökum og eiturlyfjaplágan heldur áfram að herja, vegna sparnaðar í löggæslunni og heilbrigðisþjónustunni.

Stjórnvöld munu fá gagnrýni um að vanmeta gáfur fólksins í landinu og kröfur munu vakna um að þau séu ekki starfi sínu vaxin sem landsfeður. Mótmæli og óeirðir munu verða við þinghúsið þegar þing kemur saman, þar sem krafist verður að ástandið verði lagað ella þeir verði að segja af sér.

Það verða hörð átök um, atvinnuleysi og skort á verðmætasköpun innanlands, sem þykja óþolandi, ásamt atvinnulausum útlendingum sem ríkið heldur uppi.

Þegar fólk sér ekkert annað en versnandi lífskjör, rís það upp með látum og helstefnu ríkisstjórnarinnar lýkur.

Þessi ríkisstjórn vill virkja meira og fá fleiri meingandi stóriðjur en síðan er auglýst hrein náttúra fyrir ferðafólk. Þetta verður kölluð siðblinda og tvískinnungur og margir verða reiðir.

Aðgengi að vinsælum ferðamannastöðum verður áfram ekki boðlegt. Á sumrum er allt troðið niður en um vetur slasast fólk í hálku við þessa staði. Ekki verður farið að selja aðgang að þessum stöðum og nota peningana til að laga skemmdir eftir mikinn átroðning, þetta skilningsleysi verður gagnrýnt og kallað „meinloka."

Ríkisstjórnin búin að vera

Völvunni virðist þessi ríkisstjórn búin að vera. Hún springur eigi síðar en á miðju kjörtímabili vegna launamisréttis og gagnrýni á heilbrigðismál og að þá verði stjórnarkreppa sem leiðir til þjóðstjórnar í nafni forsetans.

Það bíða allir eftir er björgun Íslands. Þá verða bankarnir þjóðnýttir, eignir auðmanna sömuleiðis, bæði innanlands og erlendis frá, þá fyrst verður Ísland sjálfstætt ríki á ný.

Bankana þarf að þjóðnýta segir Völvan og ná heim auði auðmanna úr skattaskjólum erlendis til endurreisnar íslenskum efnahag, í stað þess að reyna að koma Íslandi undir vald erlendra þjóða. Bankar ræna marga aleigunni en þeir ríku hagnast.

Yfirsýn yfir tekjur þjóðarinnar er nokkuð skýr en skuldasúpan kemst ekki strax í fréttir, völvunni sýnist ríkisstjórnin neyðast til að laga lífskjör betur og láta af þeirri stefnu að gera ríka ríkari og þá fátæku fátækari.

Erlend lán ógna sjálfstæði Íslands, þeim verður velt áfram í kerfinu og hækka stöðugt, fréttaþöggun ríkir, en aukin verðmætasköpun sem framtíðin mun færa okkur eftir sem Völvunni sýnist mun laga þetta.

Mikil ásókn verður í einkavæðingu á árinu. Þeir ríku vilja eignast allt sem hægt er að hagnast á, eitthvað verður þeim ágengt en sumir tala mjög á móti einkavæðingunni.

Það mun koma fram á árinu hve hneykslanlegt og skammarlegt það var fyrir Alþingi að standa að því einelti, að gera Geir H. Haarde einan ábyrgan fyrir efnahagshruninu. Samt munu málaferli hans ekki verða jafn farsæl og hann vonaðist eftir, svo skárra hefði verið að láta kyrrt liggja.

Miklar vonir verða bundnar við samskipti við Grænland á árinu, það ævintýri viðist ekki ætla að færa íslendingum þá gæfu sem þeir vonast eftir, þær vonir munu reynast tálsýn.

Mikill snjór og áföll fyrir vetrarferðamennsku

Veturinn verður með erfitt veðurfar, nýtt veðrakerfi sem skapast af mengun eftir sem Völvan best sér, kemur á óvart á árinu.

Mikill kostnaður verður við snjómokstur, ferðamennska að vetrinum tapar vinsældum, einhverjar slysfarir verða uppi á hálendinu, slæmt veður og jökulsprungur koma þar við sögu. Mikil leit verður gerð að fólki sem skilar sér ekki til byggða.

Útlendingar hverfa á fjöllum vegna slæms veðurs á útmánuðum, það verður mjög mikið í fréttum erlendis og spillir fyrir vetrarferðum um hálendið.

Bílslys verða fleiri á þessu ári en á síðasta ári og kemur þá margt til, til dæmis aukin umferð of mikill hraði og glæra hálka. Bílslys vegna hálku á vegum verða óvenju mörg.

Það verða breytingar á veðurfari vegna mengunar og nú færast öfgar í veðurfar, svo margir ferðamenn lenda í vandræðum, slys verða þó minni en ætla mætti miðað við áhættu.

Banaslysum fjölgar vegna þess að vegir eru of mjóir og vegrið vantar.

Íslendingar sleppa ekki alveg við náttúruhamfarir, snjóflóð munu falla á árinu, vatnsflóð streyma og eldgos verða, hraun mun renna og aska fjúka, veruleiki Íslands hverfur ekki þó ráðamenn virðist stundum halda annað „mennirnir álykta en Guð ræður" eins og þar segir.

Krafa um aukna nærþjónustu í heilbrigðismálum

Heilbrigðiskerfið fær slæma dóma og stjórnvöld fá óþægilega gagnrýni vegna langs flutnings á sjúku fólki og að börn skuli fæðast í strönduðum bílum í byljum og ófærð.

Krafist verður fullkomins sjúkrahúss í hvern landshluta, bent verður á að sjúkrahús vanti við alþjóðlegan varaflugvöll ná Egilsstöðum.

Flutningar sjúklinga innan landshluta fram og aftur og eftir atvikum milli landshluta veða gagnrýnd og Völvan sér fyrir sér hjartasjúkling eða hjartasjúklinga sem ekki munu lifa af þennan flutning fram og aftur. Fólk mun hins vegar veigra sér við að koma fram með þetta.

Völvunni sýnist núverandi ríkisstjórn muni taka gjald fyrir sjúkraþjónustu og að fólk sem mest þurfi á þessu að halda hafi ekki efni á að kaupa sér líf, eins og í Bráðavaktinni þar sem spurt sé „ertu með tryggingu" og ef svarið er nei þá sé ekkert í boði annað en að vera rúllað út úr dyrunum til að deyja annarsstaðar. Hálaunafólkið sem ræður er fullkomlega veruleikafyrt á þarfir eigin þjóðar.

Eldri afbrot gerð upp

Hrina upplýsinga um afbrot á liðnum árum gengur yfir á árinu þegar þöggun glæpa er rofin. Lögfræðikostnaður mun fara vaxandi á komandi ári, jafnvel svo fólk mun ekki hafa efni á að leita réttar síns.

Lög eru svo flókin að fólk botnar lítið í þeim án hjálpar lögfræðinga sem stunda sitt starf eins og þeir séu að stunda íþróttakeppni og þá skiptir ekki máli hvort meintur skjólstæðingur er sýkn ger eða sekur, aðeins reynir á klæki lögfræðinganna.

Gagnrýnt verður hvað lögfræðingar eru oft lengi að skila af sér málum, auk þess sem að innheimtist nýtist skjólstæðingum lítt, vegna þess að það dugar einungis upp í kostnað þeirra sem þykir óhóflegur.

Fólk er hrætt, það á ekki peninga til að sanna mál sitt og það reynir á réttlætið. Fólk umber jafnvel þjófnaði vegna þess að það telur vart svara kostnaði að leita réttar síns.

Völvan telur að upp komi aukin umræða um að einfalda lög í landinu til að hinn almenni borgari geti betur skilið þær flækjur og líkindi minnki með lögfræðistörfum íþróttakappleikjum. Samt virðist sitja við það sama á árinu og peningarnir munu ráða áfram.

Íslendingar heppnir að búa í eigin landi

Völvunni sýnist heita vatnið verði notað í auknum mæli til ylræktar á grænmeti, það vantar mat í heiminum og miklar tekjur munu skapast fyrir íslendinga vegna þessa en þeir verða þá að hætta að auka skuldir með mengandi stóriðju.

Völvunni sýnist nýr útvarpsstjóri verða kona en einhver óánægja verður með hana í því embætti.

Mikil óánægja verður með RÚV vegna fyrirferðar íþrótta og auglýsinga í dagskránni, fólk mun krefjast þess að skylduáskrift RÚV verði afnumin. Fólk telur á sér brotið að þurfa að borga fyrir slíkt og telur það brot á lýðræði að geta ekki ráðið slíku sjálft.

Völvan segir Íslendinga hafa verið lánsama að taka kristna trú og hafa kærleikann að leiðarljósi. Hún sér fyrir sér að niðurbrot sé hafið í þeim efnum, með allskonar „trúarrugli," svo hægt sé að búa til vandræði. Árátta íslendinga hefur lengi verið að ögra örlögum sínum og reyna að ráða þeim sjálfir en það hefur ekki tekist hingað til.

Völvan segir að ef múslimum tekst að festa hér rætur sé friðurinn úti, henni sýnist að þeir mæti andstöðu hér á árinu, vegna þess að reynsla af öfgum þeirra er slæm í löndum utan heimalanda þeirra.

Völvan bendir fólki á Íslandi á að hafa reynslu fortíðar að leiðarljósi þegar byggja skal upp betri framtíð. Þessi spá snýst ekki eingöngu um þetta nýbyrjaða ár, hún snýst líka um nánustu framtíð okkar og hvernig við viljum lifa hana.

Völvan bendir fólki á að borða hollan íslenskan mat, kjöt, fisk, kartöflur, kál og rófur að ógleymdu íslenska bygginu, hún biður fólk að minnast þess hvað við íslendingar erum heppnir að búa í eigin landi lausu við her og styrjaldir.

Ungdómurinn hittist án markmiða

Völvan bendir á mistök fortíðar og að þau hafi ekki verið bætt, ráðamenn í þessu þjóðfélagi hafi breytt því til hins verra með því að skattleggja samkomuhald í samkomuhúsum um land allt, í framhaldi af því hafi dansleikjahald lagst af vegna þess að fjárhagslegum grunni hafi verið kippt burtu.

Íslendingar eru nær hættir að dansa, ekki er lengur kenndur dans í skólum. Skemmtanamenningin hefur flust inn á bari sem hafa sprottið upp eins og gorkúlur, þar hittist ungdómur þessa lands án nokkurra markmiða, nema helst til að drekka þetta hefur breytt drykkjusiðunum sem hafa leitt til aukinna drykkjuvandamála og ístöðuleysis, sem gerir það að verkum að unga fólkið verður auðveld bráð eiturlyfja, sem leiða til aukinna afbrota og glæpa sem eyðileggja fólk. Vakning verður á árinu um að snúa þessari þróun við.

Völvan spyr sig, hverjir græddu á þessu niðurbroti þjóðfélagsins? Ríkisjóður leggur hinsvegar mikið fé til þeirra stofnana sem reyna að bæta heilsu þessa fólks sem hefur afvegaleiðst og á annað borð lifir af.

Völvan telur að íslendingar hafi gleymt sér í græðgisvæðingu og misst sjónar á manngildinu.

Máltækið segir „ að sjaldan launi kálfurinn ofeldið." Völvan segir að þetta kristallist líka í að ráðamenn hafi ekki hugleitt það að þeir séu afkomendur fólksins sem gaf Íslandi allt en lifir nú á ellilaunum og á elliheimilum við fátæktarmörk.

Íslendingar munu fara að huga meira að manngildin á komandi ári en verið hefur.

Úrslit borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík verða dálítið vandræðaleg, niðurstaðan líklega samsuða þriggja flokka. Völvan heldur að borgarstjórinn verði líklega kona.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.