Max Lamb: Austurland býður upp á svo margt sem enn hefur ekki verið fyllilega nýtt

Max lamb c pete collardBreski hönnuðurinn Max Lamb segir Austurland búa yfir einstöku hráefni og þekkingu sem enn hafi ekki verið nýtt til fulls. Hann heimsótti fjórðunginn öðru sinni í haust og varði tímanum meðal annars í steinasöfnun.

„Í mínum huga býður Austurland upp á margt sem enn hefur ekki verið fyllilega nýtt eða menn gert sér grein fyrir. Möguleikarnir felast bæði í einstökum hráefnum, jafnt af dýrum sem úr landinu sjálfu en einnig sérþekkingu ákveðins fólk og viðhorfinu. Það er ákveðið sjálfsbjargareðli í fólkinu. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi," segir Max.

Hann var einn fjögurra hönnuða sem tóku í haust þátt í verkefninu „Austurland: Designs from Nowhere." Auk hans voru hér þau Julia Lohmann, Gero Grundmann og Þórunn Árnadóttir. Þau unnu með fyrirtækjum og handverksfólki í að þróa söluvörur sem tengjast svæðinu og úr hráefnum af því.

Lokaútkoman er vörulína sem endurspeglar austfirska menningu, samfélag eða sjónasögu hvað varðar efnisnotkun, aðferðir eða verkþekkingu. Vörurnar verða sýndar á sölusýningu á HönnunarMars 2014, því næst á farandsýningu um Austurland í sumar og ferðast svo til London á hönnunarhátíð um haustið.

Max er alinn upp í Cornwall á suðvesturhorni Englands og segist hrífast af sambærilegum stöðum þar „náttúran stjórnar mannlegri hegðun." Hann hafi því hrifist af Íslandi en ekki getað heimsótt landið fyrr en honum var boðið á ráðstefnuna Make It Happend sem haldin var á Austurlandi í fyrra.

„Minningarnar frá í fyrra drógu mig hingað aftur," segir hann og kveðst þakklátur fyrir að hafa fengið að heimsækja Austurland þótt hann hafi komið í gegnum Reykjavík.

„Á vissan hátt eru þetta tveir ólíkir heimar. Ég starfa í London og mig langar ekki að heimsækja borgir því það er alltaf ákveðinn svipur með þeim, sama í hvaða heimsálfu þú ert staddur. Að heimsækja Ísland og fara ekki út á land hefði því verið ákveðið klúður af minni hálfu," segir hann og bætir við. „Austurland er þar sem hlutirnir gerast."

Max er húsgagnahönnuður og hefur sýnt verk sín víða um heim. Í haust naut hann leiðsagnar Vilmundar Þorgrímssonar, þúsundþjalasmiðs á Djúpavogi í tíu daga.

Vilmundur rekur sjálfur eigin vinnustofu og gallerý í Hvarfi á Djúpavogi. Max segist hæstánægður með að hafa fengið að njóta leiðsagnar hans.

„Hann þekkir svo vel til umhverfisins og af hverju Ísland er eins og það er. Hann hefur kennt mér mikla jarð- og efnafræði, af hverju ákveðnar steindir eru eins og þær eru. Ég hef reynt að meðtaka eins mikið og ég hef getað á þessum tíma til að hjálpa mér til að þróa næstu vörulínu. Ég hef þróað hugmyndir, gert frummyndir, gengið mikið og safnað steinum og beinum.

Ég hef kannað landið og það er mér mjög mikilvægt á ferðalögum mínum. Vilmundur hefur stundum sýnt mér upp í fjall í gegnum kíkinn og sagt „þú þarft að fara þangað upp" sem ég hef gert og dundað mér þar við að safna steinum."

Lamb segist nú skilja eldri verk sín betur. „Ég hef unnið með steina og rétt skilið grunnatriðin en ekki sökkt mér neitt dýpra í fræðin. Þetta hefur verið mikilvægur lærdómur, ekki bara um jarðfræði Íslands heldur veraldarinnar og hjálpað mér skilja það sem ég gerði áður.

Ég hef gert stór húsgögn úr steini áður en ekki lítil verk. Mig langar til að prófa mig áfram með þau."

Max Lamb í steinaskoðun. Mynd: Pete Collard

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.