Völva Austurfréttar 2014: Útlönd

volvumynd webEfnavopn hafa skelfilegar afleiðingar fyrir heimsbyggðina alla og mengun vegna iðnaðar hefur alvarleg áhrif á líf fólks um víða veröld. Þetta er meðal þes sem fram kemur í þriðja og síðasta hluta spár völvu Austurfréttar fyrir árið 2014.

Útlönd

Íslensk stjórnvöld munu halla sér mjög að Noregi til að losna frá Evrópusambandsruglinu sem Þjóðverjar hafa á valdi sínu.

Sá sem tekur við af Angelu Merkel mun beita þau sambandsríki meira valdi, sem skulda.

Enginn virðist taka eftir því að það sem Þjóðverjar náðu ekki með stríði ná þeir nú fram með peningum langþráðum yfirráðum yfir Evrópu. Símhleranir Bandaríkjamanna sanna þetta en nú ríkir þögn.

Kínverjar vilja ekki viðurkenna kreppu hjá sér en hún er byrjuð. Mengun vegna iðnaðar er skelfileg þar og æ fleiri lifa stutta ævi. Þar verður mannfækkun vegna mikillar mengunar, ríkir Kínverjar kaupa lönd um allan heim til að geta flúið sitt eitraða land og matur verður afar dýrkeyptur.

Efnavopn, sem beitt er í stríði úti í heimi, hafa skelfilegar afleiðingar fyrir lífríki jarðar og á ósonlag í lofthjúpnum yfir Norðurhvelinu. Sólskin verður hvítara og brennir bert hörund, fólk mun finna fyrir ógleði ef það liggur lengi úti í sól.

Framundan eru skelfilegar náttúruhamfarir í heiminum. Drepsótt kemur upp í heitari löndum, þau verða sett í einangrun og verða að lifa á eigin framleiðslu um tíma. Fátækar þjóðir reyna að lifa af. Mannfækkun vegna notkunar efnavopna á eftir að hræða heimsbyggðina. Ísland mun einangra sig um tíma vegna þessa.

Eiturefni í heiminum eru skelfileg, þau ríki sem eiga efnavopn munu vinna í að eyða þeim á árinu. Nokkurskonar náttúruhamfarir mundu verða ef allt þetta eitur mundi sleppa út vegna þess að það getur eytt öllu lífi á jörðinni ef því er að skipta.

Þetta mengunarskeið verður ekki mikið lengra ef samstaða næst um að hætta styrjöldum og eyða efnavopnum.

Betri tímar eru í vændum í framhaldi af þessu enda kominn tími til að fólk fái að lifa í friði fyrir mengun í eigin löndum.

Þessi mengun mun hafa þau áhrif að mörg lyf munu hætta að verka til dæmis sýklalyf, og bakteríur halda áfram að þróa mótefni gegn þeim.

Heilbrigt líf og ómenguð landsvæði verða í auknum mæli ein af vörnunum gegn sýkingum.

Tölvurnar eiga eftir að reynast einn versti skaðvaldur mannkyns, því miður eiga þær eftir að valda meiri skaða í heiminum í framtíðinni en nokkur heimstyrjöld hefur gert. „Sá veldur sem á heldur."

Eftirmál

Skófatnaður Sigmundar Davíðs, sem frægur varð á síðasta ári þar sem skórnir voru hvor af sínu tagi, var í öndverðu kallað þrælapar. Var hann með því að gefa í skin fyrirætlanir sínar með eigin þjóð? Eða að hann væri þræll Bandaríkjaforseta? Getur verið að þetta með skóna hafi haft merkingu?

Gömul vísa er svona.

„Lygin fór um lönd og sjó,
langt í burtu héðan.
Sannleikurinn sína skó,
sat og batt á meðan."

Þegar Völvan horfir til framtíðar, sér hún snjóbakka færast upp á himininn, upp af sjónum og byrgja sólarsýn. Það ríkir mikil kyrrð, fólk stendur í hálfrökkrinu og horfir í gráðann. Það bíður eftir hvað muni gerast þegar þessi hvíti bakki færist lengra upp á himininn, kyrrð og óvissa ríkir í rökkrinu.

Tveir vísindamenn eru niðri í sjónum, þeir koma upp á milli ísjaka og færa hvíta bakkann fyrir sólina og lengra upp á himininn.

Fólkið bíður í óvissu, það verður dimmt og kalt. Ætla þeir að hylja himinn og sól lengi með éljabakka? Óvissa ríkir meðan vísindamennirnir eru þarna enn að störfum.

Fólkið hugsar um að flýja, en það er ekki hægt að komast í burtu. „Við deyjum einhvern tíman hvort sem er" segir einhver. Óvissan er verst! „Ef þeir hætta þessu áður en kólnar meira þá lifum við af" segir annar.

Völvan sér að undir næstu áramót verði farið að vinna að friði og sátt milli allra ríkja í heiminum, en lætur lesendum annars eftir að ráða í þessa sýn.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.