1000 myndir sem þú verður að sjá í Sláturhúsinu
Hópur kvikmyndaáhugafólks hittist vikulega í Sláturhúsinu á Egilsstöðum til að horfa á sígildar bíómyndir. Um helgina verður horft á The Kid eftir Charlie Chaplin en af því tilefni verður í boði sérstök barnasýning á laugardag.„Það er mikill áhugi á klúbbnum og jákvæðni gagnvart honum," segir sláturhússtjórinn, Halldór Warén.
Hópurinn hóf göngu sína í haust og velur sér myndir úr bók sem kallast „1000 myndir sem þú verður að sjá áður en þú deyrð.
Hópurinn hittist á hverju fimmtudagskvöldi klukkan átta í Sláturhúsinu en á laugardaginn klukkan þrjú verður sérstök barnasýning í boði þar sem mynd vikunnar er The Kid með Charlie Chaplin.
„Það kom ósk um að hún væri sýnd líka á laugardaginn og við urðum við því. Mér finnst að þessi látbragðsleikurinn eigi fullt erindi við krakkana. Það þarf ekki alltaf blaður og snöggar klippingar," segir Halldór.
Fyrir Halldóri rifjar klúbburinn upp minningar úr æsku þegar bíósýningar voru í Valaskjálf. „Það var oft erfitt að fá myndir og við horfðum á Harold Lloyd og Busty Keaton. Myndirnar komu oft í sýningar úti á landi þremur árum eftir að þær voru sýndar í Reykjavík og þá voru þrjú ár liðin frá því að þær voru frumsýndar í Bandaríkjunum."
Klúbburinn er öllum opinn og frítt á sýningar. Engin sala er í húsinu svo gestir verða sjálfir að mæta með eigið popp og gos.