Skrifar annála fyrir bæði blótin á Norðfirði: Næturnar eru gríðarlega vinsælar

jon bjorn hakonarson mai12Jón Björn Hákonarson hefur haft í nógu að snúast síðustu vikur því hann skrifar annála og les fyrir bæði þorrablótin sem haldin eru á Norðfirði. Hann segir mikilvægt að vera ávallt opinn fyrir því að sjá fyndnu hliðarnar á hlutunum.

„Þetta er búið að taka frá manni allan dauðan tíma í janúar. Næturnar eru gríðarlega vinsæll vinnutími. Það verður að viðurkennast að þetta er ógeðslega mikil vinna," segir Jón Björn í samtali við Austurfrétt.

Á Norðfirði er annars vegar haldið Sveitablót af þeim sem búa ekki í Neskaupstað og fyrir því er um níutíu ára hefð. Það var haldið síðastliðinn laugardag og þar hefur Jón Björn samið og lesið annálinn undanfarin átján ár.

„Ég bý ekki lengur inni í sveit eins og ég gerði en ég sest niður með nefndinni og kreisti upp úr henni punkta sem ég nota svo til að búa til annálinn."

Kommablótið, sem haldið verður annað kvöld, hefur gengið í tæp fimmtíu ár. Það var haldið af Alþýðubandalaginu en þegar flokkurinn var lagður „niður á landsvísu þótt hann sé enn til í Neskaupstað," eins og Jón Björn orðar það, var það opnað og gert að bæjarblóti í Neskaupstað.

Þar semur Jón Björn annálinn ásamt Guðmundi Bjarnasyni, Smára Geirssyni og Guðmundi Gíslasyni. „Við fjórir hittumst helst strax um áramót og förum þá í „annálsbíltúrinn" þar sem við reynum að rifja upp hvað hafi gerst og leggja línurnar fyrir annálinn.

Sá hópur hefur samið saman undanfarin ellefu ár. Jón Björn, sem er forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð, segist vera samþykktur í ritstjórn Kommablótsins þrátt fyrir að vera framsóknarmaður. „Sálir okkar liggja svo nærri."

Hann kvartar þó undan að fá ekki að syngja á Kommablótinu. „Það er allur annállinn lesinn á sveitablótinu. Þar dugar hefðin svo það þarf ekki að banna mér að syngja þar."

Jón Björn segir að hefðirnar á bakvið blótin tryggi að efnið í annálunum skarist ekki þótt sami skrifarinn sé að miklu leyti að baki.

„Í sveitinni er bara fjallað um sveitina og öfugt í bænum. Þess vegna blandast þetta ekki mikið saman þótt einn og einn sé svo víðfrægur að komast í báða annálana. Ef það gerist reynir maður að finna mismunandi vinkla"

Lykilatriði fyrir góðan annálsskrifara er að vera vakandi allt árið og jákvæður. "„Stóra málið er að gera grín án þess að meiða og að þeir sem ekki þekkja til geti samt helgið. Maður verður því að vera hugmyndaríkur og glaður alla daga.

Ég fattaði það í fyrra að það gott að skrifa atburðina hjá sér um leið og þeir gerast. Það er ekki gott að treysta á minnið um áramót. Annars er mikilvægasta reglan hjá mér að góð saga á aldrei að gjalda sannleikans!"

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.