Afrakstur Hljómsveitanámskeiðs Austurlands fluttur á stórtónleikum í næstu viku
Afrakstur Hljómsveitanámskeiðs Austurlands, sem staðið hefur yfir síðan í nóvember, verður fluttur á sérstökum tónleikum í næstu viku. Aðalkennarinn segir að á námskeiðinu, sem ferðast hefur verið með um fjórðunginn, hafi verið farið yfir allt það helsta sem við komi því að starfa í hljómsveit.„Það er oft lítill tími í tónlistarskólunum til að sinna samspili og við höfum reynt að sinna þeirri þörf auk þess að hjálpa krökkunum í að koma fram," segir gítarleikarinn Jón Hilmar Kárason.
Í haust var auglýst eftir þátttakendum en alls skráðu 18 þátttakendur sig, ýmist einstaklingar eða hljómsveitir til þátttöku.
„Við höfum farið til krakkanna þar sem aðstaða hefur verið til og hitt þau reglulega á æfingum," segir Jón Hilmar sem stóð að baki námskeiðinu ásamt Þorláki Ægi Ágústssyni.
Ýmsir gestakennarar hafa komið við sig, meðal annars Evróvision-farinn Eyþór Ingi. Hljómsveitir af námskeiðinu hafa meðal annars komið fram á Neistaflugi, Vegareiði og Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi.
Námskeiðinu lýkur á stórtónleikum í Menningarmiðstöðinni á Eskifirði miðvikudaginn 12. febrúar klukkan 20:00. Þar kemur önnur stjarna úr söngvakeppninni, Jóhanna Guðrún, fram með sveitunum og gefur þeim að auki góð ráð.
Þá verður til sölu geisladiskur með lögum úr námskeiðinu en tekið var upp eitt lag með hverri hljómsveit. „Þau hafa líka verið að semja og við höfum stutt þau í því. Við fórum til þeirra með upptökugræjur og tókum upp þannig þau hafa fengið að kynnast öllu ferlinu."