Forsetahjónin heimsækja Fljótsdalshérað og Seyðisfjörð

forseti faskrudsfjordur 0036 webForseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú munu heimsækja Egilsstaði og nágrenni á morgun, föstudaginn 14. febrúar og Seyðisfjörð laugardaginn 15. febrúar.

Heimsókn forsetahjóna hefst í leikskólanum Tjarnarskógi klukkan 10:00 og þaðan verður haldið að Egilsstaðaskóla og Tónlistarskólann á Egilsstöðum þar sem forseti mun ávarpa nemendur og hlýða á dagskrá.

Frá Egilsstaðaskóla liggur leiðin í Menntaskólann á Egilsstöðum. Eftir kynningu á skólastarfinu mun forseti ávarpa nemendur á sal skólans, svara fyrirspurnum og snæða í kjölfarið hádegisverð með nemendum og starfsfólki í mötuneyti skólans.

Eftir hádegi munu forsetahjón fyrst heimsækja Hugvang kl. 14:00 en Hugvangur er samheiti nokkurra fyrirtækja í kynningar-, tölvu- og hugbúnaðargeiranum sem mest starfa erlendis en hafa höfuðstöðvar á Egilsstöðum.

Frá Hugvangi halda forsetahjónin í Egilsstaðabúið og kynnast starfsemi þess. Þaðan liggur leiðin að Hitaveitu Egilsstaða og Fella við Urriðavatn og loks í Sláturhúsið þar sem listamenn hafa starfsstöðvar og fram fer sýningarhald og tónleikar.

Að kvöldi föstudagsins 14. febrúar munu forsetahjón snæða kvöldverð í boði sveitarstjórnar Fljótsdalshéraðs á Hallormsstað.

Laugardaginn 15. febrúar munu forsetahjónin fara til Seyðisfjarðar. Þar afhendir forsetafrúin Eyrarrósina, árleg verðlaun sem veitt eru fyrir framúrskarandi menningarstarf á landsbyggðinni.

Eyrarrósin var fyrst veitt árið 2005 og er byggð á samstarfi Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Flugfélags Íslands. Dorrit Moussaieff forsetafrú er verndari Eyrarrósarinnar. Athöfnin hefst kl. 13:00 og fer fram í Skaftfelli á Seyðisfirði, en Skaftfell hlaut Eyrarrósina á síðasta ári.

Á Seyðisfirði munu forsetahjónin einnig hitta nemendur Grunnskólans á Seyðisfirði að morgni laugardagsins 15. febrúar, snæða hádegisverð í boði bæjarstjórnar og taka kl. 15:00 þátt í lokahófi „Hnallþóru í sólinni", 15 ára afmælissýningar Skaftafells.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.