Tvíburabæir: Söguganga um Melbu á Seyðisfirði - Myndir
Listasýningin Tvíburabæirnir eða „Twin City" stendur yfir á Seyðisfirði og í Melbu í Noregi um þessar mundir. Á sunnudag var boðið upp á leiðsögn um norska bæinn á Seyðisfirði.Sýningin er samvinnuverkefni þriggja norrænna listamanna en Seyðfirðingurinn Pétur Kristjánsson er einn þeirra og leiddi gönguna.
Margt þykir líkt með bæjunum tveimur. Þeir byggðust upp á svipuðum tíma, einn athafnamaður var drifkrafturinn á hvorum stað og byggingar í þeim þykja um margt líkar.
Gangan hófst við Hafnarvog en síðan var gengið eftir aðalgötunni yfir torgið hjá grunnskólanum, þaðan yfir brúna og endað fyrir framan kirkjuna.
Á leiðinni eru skilti með sögu Melbu og myndum af húsum þaðan er varpað á hús á Seyðisfirði sem þykja líkjast þeim norsku. Í Melbu eru síðan myndir frá Seyðisfirði.
„Það skapaðist mikil umræða um sögu þessara bæja í göngunni," segir Örvar Jóhannsson, fréttaritari Austurfréttar á Seyðisfirði sem fór með í gönguna. „Maður þarf eiginlega að gera sér ferð til Noregs til að skoða sögu Seyðisfjarðar!"
Sýningin stendur til laugardags.