Aðsóknarmet slegið á Austurfrétt: 14.000 notendur
![Austurfrett](/images/stories/news/logo/Austurfrett.jpg)
Þetta kemur fram í tölum Modernusar sem sér um samræmda vefmælingu á Íslandi. Notendurnir voru 14.171 sem er um 50% aukning frá eldra meti og í fyrsta skipti sem þeir eru fleiri en tíu þúsund í einni viku.
Daglegir notendur voru 2.717 en voru áður flestir rúmlega 1.900. Flettingar voru 79.462 sem er um 20% aukning frá eldra meti.
Vinsælasta frétt vikunnar var um orð Janne Sigurðssonar, forstjóra Alcoa Fjarðaáls, frá fundi um verðlagningu á flugfargjöldum í innanlandsflugi. Hún sagði að flugið ætti ekki að vera lúxus þegar menn hefðu ekki kost á öðrum samgöngumátum.
Myndasyrpa af heimsókn forsetahjónanna á Egilsstaðabýlið vakti líka gríðarlega athygli en forsetafrúin tók þar ástfóstri við nýfæddan kálf. Frásögn af orðum Bjarna Benediktssonar á opnum fundi á Héraði fór líka víða. RÚV og Eyjan gerðu fréttir upp úr frétt Austurfréttar auk þess sem ummæli úr fréttinni voru rædd á Alþingi.
„Þetta staðfestir þá tilfinningu okkar að Austurfrétt sé sá miðill sem menn nota helst til að afla sér frétta af Austurlandi og jafnframt sá miðill sem mest áhrif hefur á daglega umræðu í fjórðungnum," segir Stefán Bogi Sveinsson, markaðsstjóri Austurfréttar.
Stefán Bogi segir augljóst að vefurinn veki athygli langt út fyrir Austurland. Íbúar á svæðinu frá Vopnafirði til Djúpavogs eru ekki nema rúmlega 10.000.
„Austurfrétt er öflugt verkfæri til að ná augum umheimsins. Þessar lestrartölur segja okkur að auk heimamanna eru margir, brottfluttir og aðrir áhugasamir, sem horfa hingað austur. Þeir nota Austurfrétt til að afla sér upplýsinga um það sem er að gerast á svæðinu."