Hlynur Jökuls: Tónlistin er mitt líf og hefur alltaf verið

hlynur esther jokulsAustfirski tónlistarmaðurinn Hlynur Jökulsson sendi nýverið frá sér sína fyrstu sólóplötu, Letters & Tattletales. Hann segist hafa fengið hvatningu frá systur sinni til að koma plötunni út.

„Platan varð til i stofunni heima hjá Esther systur minni í Hafnarfirði. Þar vorum við einu sinni að djamma mín lög og okkur fannst tími til að kynna þetta fyrir fólki. Esther þekkir töluvert af tónlistarfólki svo hún hringdi í Jón Kjartan Ingólfsson bassaleikara. Jónas Sigurðsson spilaði líka eitt gigg."

Hlynur og Esther, sem er þekkt söngkona, eru alin upp á Grímsá í Skriðdal. Þriðja systkinið, Hlöðver, var einnig með í upptökunum svo segja má að fjölskyldan hafi hjálpast að við að gera plötuna. „Við ólumst upp á Grímsárvirkjun og sungum mikið saman með undirspili frá henni mömmu."

Þau prófuðu sig áfram með tónlistina á tónleikum og komust í gegnum þá í kynni við hljóðmanninn Garðar Þór Eiðsson sem kom þeim inn í stúdíó og tók upp plötuna.

Hlynur býr í dag í Tromsö í Noregi en hann starfaði þar fyrst sem trúbardor. Í dag er hann tækniráðgjafi í heilbrigðisþjónustu. „Það er viðurværið en tónlistin er mitt líf og hefur alltaf verið," útskýrir hann.

Þetta er í annað skiptið sem hann gefur út tónlist á disk. „Ég starfaði i einni hljómsveit sem hét Chevy-band í Stavanger og við gáfum út fjögurra laga disk með mínum lögum í þusund eintökum. Þetta voru lög í gömlum rokkstíl sem féll í góðan jarðveg. Bandið leystist upp eftir útgáfuna og allt féll um sig sjálft, og allt fór á haugana!"

Hlynur og Esther ætla að ferðast á milli þjóðlagahátíða í Evrópu á næstunni til að kynna plötuna. Hlynur kveðst einnig binda vonir við að þau fái að spila á Bræðslunni á Borgarfirði í sumar.

Hann segist vera tilbúinn með lög á fleiri plötur. „Ég hef nánast endalaust af efni í mínum skúffum," en fyrst er að fylgja Letter & Tattletales eftir.

Diskurinn fæst í Húsi handanna á Egilsstöðum en einnig er hægt að nálgast tónlistina í stafrænt í gegnum iTunes, Amazon og Spotify. Þá má hlusta á diskinn á http://hlyn.bandcamp.com

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.