Krummi krunkar úti vinsælasta lagið á öskudaginn – Myndir
Óvenju gestkvæmt hefur verið á ritstjórnarskrifstofu Austurfréttar í dag þar sem 95 furðuverur komi í heimsókn og tóku lagið á öskudaginn. „Krummi krunkar úti" var vinsælasta lag dagsins.Vert er að geta þess að mikil fjölbreytni var í bæði laga- og búningavali. Samkvæmt talningu Austurfréttar komu 95 krakkar í tuttugu hópum í heimsókn á Hugvang, þar sem Austurfrétt er til húsa.
Krummi krunkar úti var oftast sungið eða þrisvar sinnum. Önnur lög voru ekki sungin oftar en einu sinni. Annars voru sungin tvö lög úr Söngvakeppni sjónvarpsins, Meistari Jakob í keðjusöng, dansað við lag Spilverks þjóðanna Skýin og fluttur frumsaminn texti um öskudaginn.
Búningarnir voru einnig fjölbreyttir þótt erfitt hafi reynst að flokka um fjórðung þeirra sem komu. Fótboltamenn litu við, aðskildir síamstvíburar, illmennagengi úr myndunum um Leðurblökumanninn, rauðhettur, leyniþjónustumenn og risaeðla.
Austurfrétt er til húsa á efri hæð Kaupvangs 6 ásamt Austurneti, Rational Network, AN lausnum, AX North og auglýsingastofunni Augasteinum í svæði sem kallast Hugvangur. Á hæðinni eru einnig starfsmenn Vinnueftirlitsins og Ferðaskrifstofu Austurlands.
Tekið var á móti sönghópunum í sameiginlegu rými og þeim gefinn sleikibrjóstsykur að loknum söngnum.