Námskeiðum tengdum tækni og tæknimenntun verður fjölgað

keilir austurbru 0003 webKarl Sölvi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Austurbrúar segir að stefnt sé að því að fjölga enn frekar starfstengdum námskeiðum sem tengjast tækni og tæknimenntun og þjóna fólki og fyrirtækjum. Hann segir viðburði á borð við Tæknidag fjölskyldunnar mjög mikilvæga til að efla vitund um gildi tæknimenntunar.

Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn annað árið í röð 29. mars nk. í Verkmenntaskóla Austurlands. Ríflega 500 manns sóttu daginn í fyrr og því ljóst að áhuginn á tækni og tæknimenntun er mikill. Undanfarin ár hefur atvinnulífið í auknum mæli kallað eftir tæknimenntuðu fólki af öllum námsstigum. Ekki hefur tekist að uppfylla þörfina fyrir hæft starfsfólk á sviði hátækni og þekkingariðnaðs á Íslandi.

Karl Sölvi segir að á Austurlandi séu góð tækifæri til tæknimenntunar. „Verkmenntaskóli Austurlands býður upp á gott og vandað iðnnám í tæknigreinum og Tæknifræðinám Keilis hefur hafið samstarf við Austurbrú um fjarnám sem óneitanlega bætir stöðu iðnmenntaðra til frekara náms á háskólastigi."

Þá hefur tilkoma hátækni álvers á Reyðarfirði aukið þörfina fyrir tæknimenntað fólk. Karl segir að við sjóndeildarhringinn séu einnig ný og spennandi tækifæri í kringum olíuiðnað og pólsiglingar sem þýði ný og fjölbreytt störf.

„Í olíuiðnaði skapast 20 ný störf fyrir hvert sjósækið starf í greininni," útskýrir Karl. „Það eru allskonar störf bæði í tækni, þjónustu og öðrum faggreinum. Ef Austfirðingar vilja nýta þessi tækifæri, þarf markvisst að efla áhuga unga fólksins á undrum tækninnar. Það þarf að gera tækninámi á framhaldsskólastigi hærra undir höfði og nauðsynlegt er að bjóða upp á öflugt fjarnám í verk- og tæknifræði."

Símenntunarsvið Austurbrúar hefur í hyggju að fjölga enn frekar starfstengdum námskeiðum sem tengjast tækni og tæknimenntun og þjóna fólki og fyrirtækjum. Gott dæmi um afrakstur slíkra verkefna er samstarf Austurbrúar og Alcoa um Stóriðjuskólann.

Ef litið er til olíuiðnaðarins skapast fjölmörg tækifæri í starfstengdum námskeiðum fyrir þann geira. Öryggis- og umhverfiskröfur til þeirrar starfssemi eru gríðarlegar og starfsmenn eru í stöðugri endurmenntun.

Karl segir það áhyggjuefni að í samanburði við landsmeðaltal sé mun lægra hlutfall íbúa á Austurlandi með háskólagráðu. Þá er einnig heldur lægra hlutfall Austfirðinga með stúdentspróf sem hæstu prófgráðu. Það er hins vegar jákvætt að nokkru hærra hlutfall austfirskra kvenna er með iðnmenntun.

„Á komandi árum og áratugum hefur Austurland tækifæri til að þróast og eflast í tæknisamfélag þar sem mikill fjöldi sérfræðinga stundar hálaunuð störf sem krefjast sérhæfingar. Störf sem eru verðmæt út um allan heim og ekki bundin átthagafjötrum. Frelsið til að velja sér nám og móta eigin framtíðarsýn og stefnu er í höndum unga fólksins."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.