Stofna félag skapandi fólks: Við erum sterkari eftir því sem við erum fleiri saman
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. mar 2014 15:29 • Uppfært 20. mar 2014 15:30
Samfélagið kallast félagshópur skapandi fólks á Austurlandi og víðar en markmið hópsins er að tengja saman skapandi fólk og þá sem hafa áhuga á sköpun. Forsvarsmaður hópsins segir fullt af skapandi einstaklingum felast í fjórðungnum.
Starfsemi félagsins var kynnt á málþingi um skapandi greinar á Austurlandi sem haldið var á Egilsstöðum á miðvikudag. Félagið var stofnað í framhaldi af ráðstefnunni „Make it Happen" haustið 2012 og hefur staðið fyrir einni samsýningu.
„Skilyrðið fyrir að vera með er bara að vera skapandi einstaklingur og hafa áhuga á samfélagi við aðra skapandi einstaklinga og hafa velvilja gagnvart skapandi greinum. Í félaginu eru ekki bara Austfirðingar heldur líka þeir sem vilja tengjast Austurlandi," segir Ingunn Þráinsdóttir, formaður félagsins.
Félagið hefur staðið fyrir vinnustofum víða um Austurland, bæði með heimafólki og gestum. Forsvarsmenn félagsins segja sköpunina vera komna um allan fjórðunginn. „Fyrsti suðupunkturinn var á Seyðisfirði en nú eru þeir orðnir til á Djúpavogi og eiginlega hvar sem er."
Ingunn segir mikið af skapandi fólki á Austurlandi. „Við viljum fá fólk til að miðla þekkingu sinni fyrir utan sitt daglega líf. Það er fullt af fólki sem kann alls konar hluti en er bara í sinni vinnu og við viljum fá það til að tengjast öðruvísi en það gerir daglega," segir hún og bætir við að sköpunin snúist um meira en að geta búið til áþreifanlega hluti í höndunum.
Samfélagið er því mjög opinn félagsskapur. „Við erum sterkari eftir því sem við erum fleiri saman."